3. maí 2016
Fundur í morgun með stjórnendum bæjarins. Þar fórum við yfir niðurstöðu ársreiknings 2015, framkvæmdir sem framundan eru, hátíðir sumarsins og það sem hæst ber á hverri stofnun fyrir sig.
Fór á rúntinn til að skoða staðsetningu á nýju upplýsingaskilti sem setja á upp við Breiðumörkina. Væntanlega þarf örlítið að færa til götukort Lions til að hitt komist fyrir. Á nýja skiltinu verða upplýsingar um alla ferðatengda þjónustu í bæjarfélaginu. Allir með eins skilti sem gera grein fyrir þeirri þjónustu sem veitt er og vegalengd að viðkomandi stað. Með þessu móti vonumst við til að laus skilti á víð og dreif við innkeyrsluna í bæinn heyri sögunni til. Kíktum einnig við í Hveragarðinum þar sem við fundum stað fyrir goshverinn góða sem á að koma þar upp í þessum mánuði. Verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu. Í inngangshúsinu stefnir í flotta uppskeru á næstunni en vínberjaklasar hanga þar út um allt, bananar eru í þroskaferli og tómatarnir dafna vel. Ólífutréð er einstaklega fallegt svo kannski fáum við ólífur líka...
Fundur í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í hádeginu í dag. Tíminn í bílnum var nýttur vel til vinnu en síminn er mikið þarfaþing...
Síðdegis var nóg að gera við að fara yfir reikninga, lesa tölvupósta og svara erindum áður en ég hitti einn góðan íbúa en við höfðum ákveðið að spjalla yfir kökusneið hjá Almari bakara. Þaðan fórum við yfir á bókasafnið þar sem Laddi skemmti viðstöddum af sinni alkunnu snilld. Grímur Gíslason formaður kjördæmisráðs mætti síðan á fund með stjórn Sjálfstæðisfélagsins og bæjarfulltrúum til að ræða kosningarnar framundan. Það er nokkuð ljóst að það verður þéttskipuð dagskrá næstu mánuði...
Var gestur á lokafundi Lionessu klúbbsins hér í Hveragerði í kvöld. Sagði ég þar frá því hvernig hefði verið að alast upp hér í Hveragerði. Mér fannst gaman að fá að segja frá mínum minningum en óneitanlega hefur bæjarfélagið tekið risa breytingum á þessum árum sem liðin eru. Skemmtilegt kvöld sem endaði með glæsilegu kökuborði...
Verð síðan að mæta í zumba í fyrramálið til að dansa af mér allar þessar kökur ...... Verst að tíminn er kl. 6:00 ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli