31. maí 2016
Boðaður hefur verið aukafundur í bæjarstjórn næstkomandi fimmtudag þar sem eina málið á dagskrá er ráðning skólastjóra Grunnskólans. Það er mikilvægt að nýr stjórnandi nái að heilsa upp á starfsmannahópinn áður en allir fara í sumarfrí og því var gripið til þess ráðs að halda þennan aukafund til að ná því. Bæjarráð verður einnig á sínum stað þennan fimmtudag svo það var nóg að gera í morgun að koma út fundarboðum. Það eru reyndar ekki margir liðir á dagskrá bæjarráðs enda var fundur í ráðinu í síðustu viku.
Eftir hádegi í dag hittist stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks á Suðurlandi. Þessa stjórn skipar sú sem þetta ritar, Ásta í Árborg sem er formaður og Ásgeir, sveitarstjóri í Mýrdal. Fínn hópur sem vinnur vel saman. Í kjölfar okkar fundar hófst vorfundur Bergrisans sem fulltrúar allra sveitarfélaganna á Suðurlandi sóttu. Bergrisinn er byggðasamlag stofnað í kringum málefni fatlaðs fólks þegar sá málaflokkur fluttist yfir til sveitarfélaganna. Allur þessi sami hópur fór síðan yfir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem Herdís, forstjóri, hafði boðað fulltrúa sveitarfélaganna til fundar um alvarlegan rekstrarvanda stofnunarinnar. Fór hún skilmerkilega yfir stöðuna en ljóst er að bregðast þarf við ef ekki á að koma til afdrifaríks niðurskurðar á þjónustu.
Kíkti á skrifstofuna síðdegis þar til ég fór í rigningunni og rokinu á vorhátíð leikskólanna. Það var mikið fjör og gaman en óneitanlega setti hundleiðinlegt veður strik í reikninginn !
Var aldrei þessu vant komin heim um kl. 18 og átti því allt kvöldið í rólegheitum heima. Albert Ingi er að fara í útskriftarferð til Spánar á morgun og því var það kærkomið að geta lagt honum lífsreglurnar og aðstoðað við að pakka - er ekki alveg viss um hvort að hann var jafn ánægður :-)
Afmælisdrengur dagsins er Albert Ingi sem er tvítugur í dag. Í gær átti Lárus Ingi afmæli - hann er aðeins eldri een Albbert !
Afmælisdrengur dagsins er Albert Ingi sem er tvítugur í dag. Í gær átti Lárus Ingi afmæli - hann er aðeins eldri een Albbert !
Comments:
Skrifa ummæli