9. september 2015
Skutla hér inn einni líflegri mynd sem tekin er í Afríku í gær (Bananahúsinu) á Reykjum. Þetta eru semsagt alíslenskir gómsætir bananar. Þarna ná þau að rækta um hálft tonn af banönum á ári ef ég man rétt það sem hún Gurrý fræddi okkur um.
Gestir mínir frá því í gær voru hrifnir af íslensku banönunum eins og hér sést. Japanski sendiherrann er önnur frá vinstir og borgarstjóri Izu í Japan býr sig undir að fá sér bita við mikla kátinu viðstaddra :-)
Í dag var erilsamt eins og oftast er dagana sem fundarboð bæjarstjórnar er sent út. Dagurinn byrjaði snemma á fínum fundi með Þorsteini Ragnarssyni, formanni Knattspyrnudeildar Hamars. Við ræddum hugmyndir knattspyrnumanna varðandi yfirtöku á flettiskiltinu við hringtorgið eins og mér var falið að gera af bæjarráði. Sama mál hef ég einnig rætt við Hjalta formann aðalstjórnar Hamars. Niðurstöður viðræðnanna verða kynntar í bæjarráði í næstu viku. Mér fannst athyglisvert að heyra um líflegt starf knattspyrnudeildar en nú eru iðkendurum 150 talsins og þar af um 60 stúlkur. Það er mikil breyting á fáum árum. Þar eigum við frábærri aðstöðu í Hamarshöll mikið að þakka og góðu starfi Ágústs Örlaugs sem stýrir starfi deildarinn með miklum sóma.
Atvinnustefnan var síðan fínpússuð síðdegis en hún hefur verið rædd ítarlega í bæjarráði og er nú til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Átti góðan fund með Davíð Samúelssyni sem hefur núna mörg járn í eldinum fyrir hönd bæjarins. Það verður gaman að fylgjast með þeirri framvindu á næstu mánuðum.
Fór ásamt Ástu Stefáns, Jóni Valgeirssyni og aðilum frá Sorpu til fundar við sveitarstjórnarmenn í Ölfusi þar sem rætt var um framtíðarhorfur í sorpmálum á Suðurlandi. Það er engin launung að horft til til þess stóra óbyggða landsvæðis sem er vestan við byggðina í Ölfusi þegar skoðaðir eru framtíðarstaðir fyrir starfsemi tengda sorpi og sorpurðun. Fundurinn var góður og hreinskiptinn eins og nauðsynlegt er þegar svona mikilvæg mál eru á dagskrá.
Endaði síðan daginn með Jóhönnu M. vinkonu í dekri á Hotel Natura og frábærum mat á Vox þar sem vonlaust var að fá borð á veitingahúsinu á hótelinu. Samt er bara ósköp venjulegur þriðjudagur í september... En nú er sem sagt verið að eyða afmælisgjafabréfum síðasta árs. Ekki seinna vænna.
Frábær endir á góðum degi.
Comments:
Skrifa ummæli