16. september 2015
Byrjaði daginn með Eyþóri, forseta bæjarstjórnar, á fundi niður í Þorlákshöfn þar sem við hittum Gunnstein bæjarstjóra og Svein forseta þar á bæ. Áttum við langan og góðan fund þar sem við fórum vel yfir ýmis mál er lúta að samskiptum sveitarfélaganna. Það er gott að geta átt góðar viðræður við nágranna sína.
Fór yfir reikninga, tölvupósta og erindi og átti einnig gott spjall við Heiðdísi sem er nýr yfirmaður í heimaþjónustu. Undirbjó einnig fund bæjarráðs sem verður í fyrramálið kl. 7:30 ! ! !
Sá ókristilegi fundartími er nauðsyn þar sem ég þarf að vera mætt á Skipulagsþing í Reykjavík fyrir allar aldir á morgun. Þar mun ég stýra umræðuhópi um áskoranir í ferðamennsku.
Eftir hádegi tók ég á móti hópi frá "Fylkesmannen í Telemark" í Noregi. Þau voru að kynna sér starfshætti okkar á sviði Almannavarna og viðbrögð við áföllum. Ég átti með þeim góðan fund þar sem við fórum m.a. yfir viðbrögð samfélagsins við jarðskjálftanum 2008. Allir mínir erlendu gestir fara svo á sýninguna Skjálftinn 2008. Þar vekur sprungan í gólfinu mikil viðbrögð og myndbandið úr vínbúðinni og Shell þó að klárlega sé ferð í jarðskjálftaherminn það sem er eftirminnilegast. Það var gaman að rifja upp norskuna með þessum skemmtilega hópi.
-------------
Líkamsrækt í Fitness bilinu síðdegis og infra rauði klefinn á eftir var meiriháttar. Rétt náði heim í kvöldmat áður en ég fór með Sigurbjörgu systur á fyrirlestur hjá Röggu nagla sem Lóa í Fitness bilinu stóð fyrir. Fjölmenni í salnum á þessum skemmtilega fyrirlestri.
Nú er David staddur hjá okkur 19 árið í röð. Það fer nú lítið fyrir honum og frekar að ég skammist mín fyrir það hversu lítið við sinnum honum. Hann verður því miður að bjarga sér sjálfur enda erum við ansi upptekin þessa daga. En kötturinn hefur þó félagsskap og bilast ekki alfarið úr leiðindum. Hann verður í stofufangelsi þangað til hann hættir að stinga af, kötturinn altsaa, ekki David :-)
Comments:
Skrifa ummæli