5. ágúst 2015
Nóg að gera og mikið líf í öllum deildum bæjarins. Í dag undirbjó ég fund bæjarráðs sem haldinn verður í fyrramálið en þar verða m.a. á dagskrá fjórar umsóknir um lóðir í Dalsbrún. Ákveði bæjarráð að úthluta þeim öllum þá eru lóðir fyrir parhús og raðhús þar með uppseldar þar til ný lönd verða brotin fyrir þessa íbúðategund. Þess vegna sátum við Guðmundur skipulags- og byggingafulltrúi enn eina ferðina og brutum heilann um næstu skref í lóðamálum. Þar eru nokkrar leiðir nærtækar sem unnið verður í á næstunni.
Átti gott samtal við Pál Gunnlaugsson, arkitekt, sem hannaði ásamt félögum sínum hjá ASK arkitektum, byggðina á Gímsstaðareitnum. Það skipulag er nú frágengið og verða lóðir þar auglýstar lausar til umsóknar á næstu vikum. Páll mun vinna auglýsingaefni sem bæjarfélagið getur nýtt til kynningar á þessum eftirsóknarverða búsetukosti.
Í dag eru íbúar í Hveragerði 2.422 og hefur íbúum fjölgað um 100 á síðustu 12 mánuðum, er það fjölgun langt yfir landsmeðaltali.
Átti góðan fund með Davíð Samúelssyni sem sinnir atvinnutengdum verkefnum fyrir Hveragerði og hitti einnig Jóhönnu þar sem við fórum yfir dagskrá Blómastrandi daga sem verða fjölbreyttir að venju.
Í gær fórum við Guðmundur í skoðunarferð um stofnanir þar sem unnið er að ýmis konar viðhaldsverkefnum. Þar tók ég meðal annars þessa mynd af nýjum neysluvatnslögnum íþróttahússins við Skólamörk. Miklu merkilegri mynd en margur gerir sér grein fyrir því að með þessum lögnum og nýjum hitastillum þá verður vatnshiti í sturtunum vonandi í lagi sem ítrekað hefur verið kvartað yfir.
Leiðindapest er að stríða mér þessa dagana og því sleppti ég veiði í Hlíðarvatni sem annars stóð til boða. Fúlt en hvað á maður að gera :-(
Comments:
Skrifa ummæli