12. ágúst 2015
Kláraði reglur er varða frístundastyrki til barna hér í Hveragerði. Styrkina er hægt að fá vegna tómstundaiðikunar barna á aldrinum 0-18 ára. Það var ákveðið af bæjarstjórn að hafa aldursmörkin svona rúm til að allir sem skilgreindir eru sem barn gætu nýtt sér þetta. Á fundi bæjarstjórnar í september munu reglurnar verða lagðar fyrir til samþykktar og í kjölfarið verður hægt að sækja styrkinn gegn framvísun greiðslukvittana. Þess vegna er um að gera að geyma núna allar kvittanir.
Eftir hádegi hittist stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks (Ég, Ásta og Ásgeir í Vík) og heimsóttum við Sólheima í Grímsnesi. Þar búa nú 43 fatlaðir einstaklingar sem njóta frábærrar aðstöðu og góðs atlætis. Þarna eru glæsilegar vinnustofur og húsakostur allur eins og best verður á kosið. Þeir Pétur, Guðmundur Ármann og Magnús Ólafsson tóku vel á móti okkur og fræddu okkur um starfsemina og framtíðarhorfur. Það er alltaf gaman að heimsækja Sólheima og full ástæða tll að hvetja fólk til þess, þó ekki sé nema bara fyrir hrikalega góðu kökurnar á kaffihúsinu :-)
Comments:
Skrifa ummæli