21. júlí 2015
Undirbjó fund bæjarráðs en fundarboðið fór út í dag. Þrjú stór mál eru þar á dagskrá. Beiðni um forgang að Tívolílóðinni vegna "Eden" verkefnis. Beiðni frá Náttúrulækningafélaginu um breytingu á skipulagi vegna uppbyggingar hótels og beiðni um forgang að svæði inn í Dal þar sem verið er að skoða möguleika á uppbyggingu jarðbaða og hótels. Ég man ekki eftir stærri verkefnum á einum fundi og greinilegt að fjölmargir sjá möguleikana sem Hveragerði býður upp á. Það eru spennandi tímar framundan.
Við Ari fórum í bíltúr í dag og skoðuðum framkvæmdir, garða, opin svæði og ýmislegt fleira. Bæði skemmtilegt og gagnlegt. Það var gaman að sjá hversu margir ferðamenn eru í bæjarfélaginu en til dæmis voru ótrúlega margir í Hveragarðinum og eins og alltaf örtröð á bílastæðinu við Dalakaffi.
Það er hann Óli Þ.Óskarsson sem er að byggja lítið eldhús fyrir mötuneyti grunnskólans. Ólafur Eyþór Ólafsson er yfir framkvæmdum við sundlaugina Laugaskarð en þar er stór hluti verksins málun hússins með sérstökum efnum og það mun hann Ólafur M. Ólafsson framkvæma. Þetta finnst mér mjög skondið því svo eigum við Hvergerðingar okkar eigin Ólaf Óskarsson, húsasmið, sem allir þekkja :-)
Comments:
Skrifa ummæli