30. júlí 2015
Nóg að gera í dag við að ræða við blaðamenn og taka á móti þeim. Síðasti fundur bæjarráðs var ansi innihaldsríkur og fjölmiðlar uppgötvuðu það í gær. Svo í dag ræddi ég við RÚV um frétt um lúpínuna sem við sláum nú á opnum svæðum bæjarins. Blaðamaður og ljósmyndari frá Fréttablaðinu komu hér eftir hádegi og skoðuðu mörg verkefni í bæjarfélaginu. Ræddi einnig við Sirrý Arnardóttur en hún kemur hingað á morgun að taka upp þátt fyrir Hringbraut. Einnig var ég í viðtali við Útvarp Suðurlands og síðast en ekki síst verður þátturinn Mannamót sem fluttur er á morgun á Rás1 tileinkaður Hveragerði.
Allt er þetta jákvæð og góð umfjöllun sem setur Hveragerði í forgrunn og auglýsir bæinn okkar.
Hér er ljósmyndari Fréttablaðsins að mynda Viktor og Villa sem þarna eru að slá lúpinu við Hamarsvöllinn.
Fyrir hádegi áttum við Ari, Unnur og Elínborg góðan rýnifund um Blóm í bæ, hvernig tókst til, hverju mætti breyta og hvað bæta. Svona sýning þarf að þróast og breytast en að öðrum kosti missir hún marks.
Fór á Selfoss með köttinn í bólusetningu, hann emjaði eins og stunginn grís í búrinu á leiðinni en var skárri heim. Keypti handa honum beisli svo hann gæti farið út að labba. Við prófuðum það í kvöld og það var afskaplega slæm hugmynd ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli