21. júlí 2015
Fjöldi verkefna í gangi...
Fyrsti vinnudagurinn eftir sumarfrí byrjaði skemmtilega.
Átti fund með Davíð Samúelsson strax i morgun þar sem við fórum yfir stöðu mála í þeim verkefnum sem hann er mest að vinna að en ljóst er að hans starf hefur þegar skilað ákveðnum árangri sem sjást mun á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn.
Í morgun hittum við Guðmundur einnig hóp af fólki sem hefur hug á að kanna möguleika á mikilli uppbyggingu ferðaþjónustutengds verkefnis hér í Hveragerði. Þau sendu erindi síðdegis sem tekið verður til afgreiðslu á fimmutdaginn.
Eftir hádegi fórum við Helga í útréttingar til Reykjavíkur sem við gerum annars helst aldrei. Við höfum náð góðu sambandi við ákveðið stórfyrirtæki í Reykjavík og þar höfum við fengið mikið magn af feykilega góðum skrifstofuhúsgögnum sem við höfum getað notað á skrifstofu Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings. Núna fórum við til að falast eftir meiru á skrifstofu bæjarins. Fundum ýmislegt gott sem við erum afar þakklátar fyrir. Þetta er heilmikil búbót fyrir bæjarfélagið.
Meirihlutafundur í kvöld var gríðarlega langur enda sjaldan eða aldrei verið stærri mál á dagskrá eins fundar eins og verður á komandi fimmtudag. Það er ótrúlega margt spennandi í gangi og ánægjulegt ef eitthvað af þeim verkefnum verður að veruleika, tala nú ekki um ef það verður raunin með þau öll.
Comments:
Skrifa ummæli