25. júní 2015
Tökum þátt í Blómum í bæ ...
Nú er allt að gerast í Blómabænum. Blómaskreytar út um allan bæ og líf og fjör alls staðar. Bæjarbúar eru að sjálfsögðu hvattir til að skutla eins og einu blómakeri út í innkeyrslu svona til að lífga upp á götumynd bæjarins. Það skiptir heilmiklu máli.
Dagskráin er stórglæsileg og hún Elínborg á heiður skilinn fyrir dugnaðinn og hugmyndaauðgina. Þau Ari vinna afskaplega vel saman en svona teymi er vandfundið. Síðan eru auðvitað allir hinir sem taka þátt og gera þetta mögulegt. Þið eruð frábær öll sem eitt.
Set hérna inn mynd af þeim Ara og Elínborgu okkur öllum til gleði.
Á morgun stendur mikið til en þá kemur frú Vigdís Finnbogadóttir til okkar og gróðursetur hér þrjú birkitré í Smágörðunum kl. 17. Glæsileg ungmenni úr bænum munu hjálpa Vigdísi og eitt ófætt barn sem tákn um komandi kynslóðir. Þannig gerði hún alltaf hér áður fyrr og þannig gerum við einnig nú þegar við fögnum því að 35 ár eru liðin frá því að hún var þjóðkjörin forseti, fyrst kvenna í veröldinni. Hvet alla til að mæta og hitta Vigdísi.
Setning sýningarinnar fer fram í Listigarðinum kl. 16 en þá gefst gott tækifæri til að skoða skreytingar í friði og ró. Kíkið svo endilega á dagskrána sem er mjög skemmtileg og vegleg.
Comments:
Skrifa ummæli