24. mars 2015
Langur dagur á Hellu í dag. Sótti þar virkilega góða ráðstefnu um skipulagsmál þar sem fyrirlesarar voru hver öðrum betri og góðar umræður á borðunum í lokin. Þarna var rætt um gildi svæðisskipulags og mikilvægi samvinnu á þessu sviði. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu en allir lýstu yfir vilja til að hefja viðræður um möguleika á samstarfi. Hvort að það síðan skilar ákvörðun um að ráðast út í sameiginlegt svæðisskipulag á einhverju sviði á eftir að koma í ljós. Svæðið er óneitanlega ansi víðfeðmt og verkefnin ólíkt eftir því hvort búið er á Höfn eða á Flúðum!
Strax á eftir ráðstefnunni hittumst við sveitarstjórar í öllum sveitarfélögum Suðurlands með nýja lögreglustjóranum okkar honum Kjartani Þorkelssyni. Hann tók við embætti nú um áramót og byrjar vel. Það er vel til fundið að boða til fundar sem þessa þar sem farið er yfir ýmislegt er snýr að sveitarfélögunum en samstarf þeirra við lögregluna er mikilvægt. Elís Kjartansson fór til dæmis yfir verklag varðandi heimilisofbeldi en þar hefur sérstakt átak verið sett í gang til að stemma stigu við þeim ólíðandi ófögnuði. Það vakti mikla athygli þegar Kjartan fór yfir tölur um fjölda lögreglumanna hér á svæðinu og það misræmi sem er milli svæða.
Hér á Suðurlandi eru 22.244 íbúar og 37 lögregumenn eða um 601 íbúi á bakvið hvern lögreglumann. Hér í Árnessýslu er aftur á móti 652 íbúar á bakvið hvern lögreglumann.
Á Suðurnesjum eru 22.016 íbúar og 83 lögreglumenn eða 265 íbúar á bakvið hvern lögreglumann. Ekki þýðir að skýla sér þar á bakvið flugvöllinn því hér á Suðurlandi hafa flestir fermenn viðdvöl um lengri eða skemmri tíma auk þess sem hér er gríðarlegur fjöldi sumarhúsa eða ca. 10.000 hús á Suðurlandi !
Ásta Stefáns í Árborg rifjaði upp að árið 1999 var haldin ráðstefna á Hótel Örk þar sem við vorum að berjast fyrir fjölgun í lögreglunni hér í Árnessýslu. Þar hélt hún ræðu sem fulltrúi sýslumanns og hélt fram nákvæmlega sömu rökum og þeim sem eru hér að ofan. Ekkert hefur áunnist og skilningurinn virðist ekki vera neinn á þessari stöðu. Er nema von að spurt sé, hvað valdi ?
Leikur hjá stelpunum í meistaraflokki í körfunni í kvöld. Úrslitin ekki alveg nógu hagstæð en þær stóðu sig samt vel !
Comments:
Skrifa ummæli