31. janúar 2015
Á föstudaginn var fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem lengsta og ýtarlegasta umræðan var um kjaramál. Árið á vafalaust eftir að verða litað þeirri staðreynd að fjöldi kjarasamninga er núna laus eða losnar á árinu. Ég sit í kjaramálanefnd Sambandsins og erum við eins konar bakland samninganefndar sem oftast hefur nóg að gera.
----
Síðdegis kvöddu Árnesingar Snorra Baldursson sem verið hefur slökkviliðsmaður í 43 ár. Hann hefur nú reyndar verið mun meira en það í lífi okkar fjölskyldunnar, því hann vann í Kjörís um árabil og var þar einn af fyrstu starfsfmönnum fyrirtækisins. Merkilegt reyndar að hann skuli vera orðinn sjötugur. Hann Snorri er einhvern veginn einn af þeim mönnum sem bara eldist ekki. Á myndinni erum við Kristín Sigþórsdóttir eiginkona Snorra ásamt honum.
-------
Bæjarfulltrúar 2010-2014 hittust ásamt mökum hjá Róberti Hlöðverssyni og konu hans Ingibjörgu Garðarsdóttur. Þessi hópur bæjarfulltrúa vann einstaklega vel saman og átti margar skemmtilegar stundir og því var sérlega gaman að rifja það upp. Verð reyndar að bæta við að núverandi bæjarfulltrúar eru einnig samheldinn og góður hópur sem kynnist alltaf betur og betur. Það er góð forsenda samstarfs - að fólk þekki hvert annað :-)
Comments:
Skrifa ummæli