23. janúar 2015
Þurfti að skreppa á Selfoss í dag og kom þá við hjá Guðmundi föðurbróður mínum og Ásdís konu hans. Það eru alltaf líflegar heimsóknir enda hjónin afskaplega hress bæði tvö. Nú bar reyndar svo vel í veiði að hinn föðurbróðir minn hann Sigfús var í heimsókn þannig að við áttum þarna alveg frábærlega skemmtilegt spjall sem endaði á skrifstofunni hjá "frænda". Hún er auðvitað eins og besta safni bæði skjala og mynda. Þarna smellti ég mynd af ættarveggnum. þar sem sjá má Aldísi ömmu og Kristinn afa sem voru með fyrstu íbúum Selfoss. Fyrir ofan þau langömmur mína og langafa, þau Guðmund Þorvarðarson frá Litlu Sandvík og Sigríði Lýðsdóttur frá Hlíð í Gnúpverjahreppi en þau bjuggu í Litlu Sandvík. Hægra megin eru svo Vigfús Hafliðason, frá Ósabakka á Skeiðum og Sigurbjörg Hafliðadóttir frá Brúnavallakoti á Skeiðum en þau bjuggu fyrst á Álfsstöðum á Skeiðum en síðan á Eyrarbakka. Enn ofar er eru Langalangafar og ömmur og á blöðunum nöfn langalangalanga ... Allur hópurinn eins og hann leggur sig úr Árnessýslu. Gaman að þessu :-)
Ef þið smellið á myndina af skiltinu þá er vonandi hægt að lesa skýringuna sem stendur á blaðinu. Þetta skilti hékk alltaf uppi hjá Kristni afa og Aldísi ömmu á Selfossi.
Frændi safnar bókum, skjölum, myndum og minningum en Sigfús safnar alls konar hlutum tengdum Kristni afa og ævistarfi hans, það hefur síðan fléttast skemmtilega saman við ævistarf Sigfúsar sjálfs sem einnig er afkastamikill húsasmíðameistari.
Comments:
Skrifa ummæli