8. desember 2014
Frábær hugmynd að hafa upplestur úr nýjum bókum í áhaldahúsinu. Fullt af fólki og líflegir lestrar. Ég var afar ánægð að ná loksins að hitta Yrsu Sigurðardóttur sem er ein af mínum uppáhalds. Verð að næla mér í DNA fyrir jólin... En þeir eru flottir strákarnir í áhaldahúsinu, það er nú ekki af þeim skafið :-)
Sat fund í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar á Selfossi í dag þar sem fjallað var um launamál og ýmislegt annað. Ég sat sem varamaður Ninnu Sifjar sem er í fæðingarorlofi.
Síðdegis var fundur í NOS, nefnd oddvita og sveitarstjóra í Árnesþingi utan Árborgar. Ég er svo lánsöm að fá að vera formaður þessa góða hóps en í dag var fundurinn haldinn á kaffistofunni nýju í Kjörís þar sem hægt er að tryggja mun betri veitingar en ég yfirleitt kaupi hér. Fín aðstaða og gaman að prófa að vera þarna aftur. Á fundinum var farið yfir starfsmannamál og nýjar samþykktir fyrir tilvonandi byggðasamlag sem við lögum samkvæmt verðum að stofna um starfsemina.
Meirihlutafundur í brjálaða veðrinu í kvöld. Fámennt en góðmennt vegna veðurs. Við fylgdumst vel með ástandi í Hamarshöllinni í gegnum sjálfvirka skráningarbúnaðinn en vindurinn virtist ekki hafa ýkja mikil áhrif á bygginguna. Það var traustvekjandi að sjá.
Í gærkvöldi kíktum við inní Dal en þar er nú búið að setja vegstikur meðfram veginum upp að bílaplaninu við Dalakaffi og inn að hesthúsahverfi. Þetta er gríðarlega mikill munur en stundum var tæplega hægt að finna veginn ef snjór var yfir öllu.
Comments:
Skrifa ummæli