11. nóvember 2014
Þó nokkuð stórt fundarboð bæjarstjórnar sent út í dag. Þar ber auðvitað hæst fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2015 og þriggja ára áætlun. Við gerð fjárhagsáætlunar í þetta sinn vakti það athygli okkar hversu undarlega fasteignamat á atvinnuhúsnæði kom út í þetta skiptið. Dæmi eru um að húseignir hér í Hveragerði hafi hækkað um tæplega 150% í fasteignamati en aðrar hafa staðið í stað og jafnvel lækkað. Það er mér algjörlega fyrirmunað að sjá hver reiknireglan er í þetta skiptið. Þessi breyting á fasteignamati sem við tókum inní áætlun var óréttlát en jafnframt var snúið að mæta þessu með almennri lækkun álagningarprósentu þar sem forsendur voru svo misjafnar. Rétt áður en fundarboðið var sent út í dag barst síðan tilkynning um að frumvarp yrði lagt fram á Alþingi þar sem áhrif fasteignamatsbreytingarnar eru mildaðar og þeim dreift á næstu 3 ár. Þessu þarf bæjarstjórn að mæta á milli umræðna þar sem nú þarf að draga saman í rekstri sem þessu nemur.
Þetta mál sannar enn og aftur það sem ég er búin halda fram undanfarin ár en það er að tímafrestir sem lögfestir voru í nýjum sveitarstjórnarlögum eru í besta falli hjákátlegir þegar að ríkisstjórnin samþykkir ekki fjárlög fyrr en undir jól en í þeim er iðulega að finna fjölmargt sem hefur bein áhrif á rekstur sveitarfélaganna sem eiga að skila sínum áætlunum mörgum vikum á undan ríki.
Comments:
Skrifa ummæli