5. maí 2014
Helgin var ansi öflug svo ekki sé meira sagt. Kjördæmisþing Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi var haldið á Selfossi eftir hádegi á laugardag. Þar var kosið í embætti og var Friðrik Sigurbjörnsson, okkar maður hér í Hveragerði kosinn í miðstjórn flokksins. Þar sitjum við þá tveir Hvergerðingar, því ég á þar sæti sem formaður sveitarstjórnarráðs. Við vorum nokkur sem vorum fengin til að sitja fyrir svörum í pallborði í lokin og var gaman að sjá þarna öflugt nýtt fólk til dæmis í Skaftárhreppi og Grindavík. Eftir þingið var öllum boðið að skoða flugsafnið hans Einars í Set en hann hefur sett upp fantaflotta sýningu á ýmsum gripum og ljósmyndum í skemmu á flugvellinum á Selfossi. Virkilega gaman að sjá safnið hjá honum. Rétt náði heim til að leggja lokahönd á undirbúning fyrir fordrykkjar hófið hans Lárusar en hingað komu örugglega um 70 karlar sem voru á leið á herrakvöldið. Þetta er alltaf afar skemmtilegt en í þessu hófi f´æ ég að skenka í glös og taka til. Það er nú ekki leiðinlegt :-)
Haraldur Fróði fékk að gista hjá ömmu og hann sá til þess að hún svæfi ekki út. En annars fór allur sunnudagurinn í það að bera út stefnuskrána. Við Ingibjörg og Jakob vorum saman um allt svæðið fyrir neðan Breiðumörk. Þetta var yndislegur dagur, veðrið náttúrulega stórkostlegt og okkur var víðast hvar vel tekið. Úrvinda skreið ég samt heim eftir um 6 klukkustunda labb.
Síðdegis í dag mánudag fór ég líka í Valsheiði, Smyrlaheiði, Birkimörk og Arnarheiði með Tolla, það var nú ekki síður gaman, því hvað er skemmtilegra en að hitta ánægða íbúa Hveragerðsbæjar...
Comments:
Skrifa ummæli