24. apríl 2014
Mæting fór fram úr öllum væntingum á hugmyndafundinn sem haldinn var síðastliðinn þriðjudag af frambjóðendum D-listans. Afar skemmtilegt kvöld og nú tekur við vinna frambjóðendanna allra við að fara yfir það sem þarna kom fram. Á þessari slóð má sjá myndband sem búið var til til að auglýsa fundinn http://m.youtube.com/watch?v=03Cae7mY0as
Annars voru páskarnir með annasamasta móti. Við dvöldum í afar góðu yfirlæti norður á Sauðárkróki í eina fjóra daga og höfðum það mjög gott. Það er varla hægt að komast í betri afslöppun en á Aðalgötunni. Allir farnir að sofa mjög snemma enda stendur manni ekki til boða þarna að hanga á netinu eins og alltof oft er gert til dæmis hér á H57.
40, 70 og 80 ára afmæli vina og vandamanna sem haldin voru páskadagana voru öll mjög skemmtileg og það var einnig fermingin hans Orra sem við fórum í í Skálholti í dag, sumardaginn fyrsta. Þar var nú þvílík bongó blíða, hreinlega heitt úti og glaðasólskin. Má segja að sumarið hafi heilsað með mikilli blíðu. Sumardagurinn fyrsti hófst með myndatöku D-listans bæði úti og inni, það er alltaf mikið fjör og hristir hópinn óneitanlega afar vel saman. Það var allavega mikið hlegið :-)
Skruppum síðan nokkur í morgunkaffi á Garðyrkjuskólann þar sem sumri var fagnað með hefðbundnum hætti. Náðum líka tónleikum Lay Low í sundlauginni en þar var alveg stappfullt af fólki. Virkilega notalegir tónleikar. Í fyrramálið förum við til fyrsta fundar við Arkibúlluna sem nú er að teikna og hanna sundlaugarsvæðið og endurskipuleggja sundlaugarhúsið. Það verður spennandi að sjá hjá þeim fyrstu drög að breytingum en þau verða síðan lögð fyrir bæjarstjórnarfundinn næsta til kynningar.
Comments:
Skrifa ummæli