28. ágúst 2013
Undanfarnir dagar hafa verið afar skrýtnir á Heiðmörkinni en við urðum að senda Gulla, köttinn okkar, á vit feðra sinn á mánudaginn. Það kom mér á óvart hvað það var erfitt að upplifa þetta og að við skulum öll sakna hans jafn mikið og við gerum. Hann var jú bara köttur ! EN hann var kötturinn okkar og við vorum á þessum rúmu 11 árum sem við höfðum hann hjá okkur löngu búin að sjá í honum ýmsa mannlega þætti og þannig varð hann ekki bara köttur heldur fjölskyldumeðlimur. Hann er eina alvöru gæludýrið sem ég átt um ævina og það sama á við um alla aðra hér á Heiðmörkinni nema Lárus enda er hann alinn upp í dýraríkinu í Skagafirði :-)
--------
En annars hefur vikan verið annasöm og sífellt bætast ný verkefni við listann sem aldrei virðist styttast. Tók nú samt í gegn bunkana á skrifborðinu í dag, það var þörf aðgerð og gott þegar heill hellingur fór í blaðagáminn.
Í morgun var fundur í stjórn Fasteignafélags Hveragerðis. Þar var m.a. ákveðið að auka örlítið malbikunarframkvæmdirnar sem fyrirhugaðar eru við Hamarshöll. Það verður mikill munur þegar það verður frágengið.
Skrapp til Reykjavíkur til að hitta tannlækninn sem fjarlægði endajaxlana fyrir tæpri viku. Ég er með afar skemmtilegt mar niður eftir hálsinum eftir þetta en slikt getur hæglega vakið ýmsar spurningar hjá þeim sem ekki vita hvað betri helmingurinn er mikið gæðablóð. Fljótandi fæði í heila viku er aftur á móti klárlega athyglisverð megrunaraðferð. Verst að maður hefur bara takmarkað magn af endajöxlum.
Fyrsti sundleikfimitíminn í dag. Ótrúlega gaman að hitta allan hópinn aftur. Ég allavega þurfti að spjalla svo mikið að æfingarnar fóru eitthvað fyrir ofan garð og neðan...
Prjónakvöld á Heiðmörkinni í kvöld með Grundarsystrum. Þar náðist sá merki áfangi að vestið sem verið hefur á prjónunum hér í ótrúlega langan tíma, kláraðist! Afrek af bestu gerð :-)
Comments:
Skrifa ummæli