20. ágúst 2013
Fundur í stjórn Fasteignafélags Hveragerðis í morgun. Þar var m.a. lögð fram fundargerð frá opnun tilboða í malbikunarframkvæmdir og bílaplan við Hamarshöllina en þar mun nú verða malbikað meðfram norðurhlið og austurhliðinni. Þetta mun gera snjóblástur frá höllinni miklu einfaldari en var í vetur og ekki síður gera allt umhverfi hallarinnar snyrtilegra. Einnig verður ráðist í stækkun bílaplans til norðurs en það er löngu sprungið á mestu álags tímunum.
Eftir fundinn vorum við, Gummi og Eyþór, boðuð til Elfu Daggar á Frost og funa. Vorum svo ljónheppin að vera boðin í morgunmat á Veitingastaðnum Varmá sem er einstaklega skemmtilegur. Þvílíkt útsýni sem gestirnar hafa svona í morgunsárið. Við fengum síðan að skoða hugmyndir um ýmis konar uppbyggingu á svæðinu en nú er til dæmis unnið að gerð SPA aðstöðu í kjallaranum. Gestir verða ekki sviknir af dvöl þarna :-)
Úr því við bæjarfulltrúarnir vorum komin á rúntinn þá litum við líka við í Listigarðinum og skoðuðum hann hátt og lágt. Það eru alltaf að fæðast hugmyndir bæði í hópnum og meðal bæjarbúa sem er gaman að skoða og velta fyrir sér. Hugmyndir eru alltaf af hinu góða. Þær verða kannski ekki alltaf að veruleika en þær sem eru góðar og verða að veruleika eiga það nefnilega til að slá í gegn. Við getum aldrei verið viss um hvaða hugmynd er hin eina rétta og því fögnum við þeim öllum :-)
Ég skoðaði að gamni mínu aldurssamsetningu bæjarbúa í dag og komst að því að fjölmennasti árgangur bæjarins er fæddur árið 1994 en þau eru 47 búandi hér. Mér til furðu er næstfjölmennasti árgangur bæjarins fæddur árið 1960 eða 44 einstaklingar. Í 1996 árganginum eru 43 og í 1989 eru 42 þá kemur 1993 árgangurinn með 40 íbúa og 1997 með 39. En jafnir með 37 íbua eru 1953, 1964 og 1995. Algjörlega gagnslausar en þó skemmtilegar upplýsingar :-)
Hér til hliðar má sjá afar krúttlega mynd af strákunum í 1960 árgangingum á fermingardaginn þeirra árið 1960. Setti líka mynd af henni Helgu skrifstofustjóra sem tekin er við sama tækifæri. Smellið á myndina til að stækka.
"People will forget what you said, people will forget what you did, but people will never forget how you made them feel”.
Maya Angelou
Comments:
Skrifa ummæli