9. janúar 2012
Var orðin langeyg eftir fréttum af ferðalöngunum í Thailandi svo ég hringdi og vakti þau þarna niður frá. Ferðin gengur vel og þetta er mikil upplifun. Laufey brennd eftir marglyttu sem hún lenti í á kafaranámskeiðinu sem hún annars lauk með sæmd. Er að spá í að ná sér í frekari réttindi í Suður Ameríku þegar þau fara þangað.
!
Annars fór helgin í það að taka niður jólaskrautið, ganga frá því og já ganga frá þessum landsfrægu jólakortum sem ég síðan gleymdi að fara með í póst í dag :-) Á laugardagskvöldinu hélt Guðjón frændi minn Sigfússon veglega uppá fimmtugs afmælið sitt. Ótrúlegt en satt, mér finnst nú ekki svo langt síðan að við vorum í afmælum hjá honum á Bankaveginum drekkandi margar kók í gleri en Sigfús frændi lumaði alltaf á svoleiðis kræsingum í massavís !Tók helling af myndum í afmælinu og hér eru tvær, ein af afmælisbarninu með eiginkonu, dætrum og kærasta Þórhildar, þarna skartar Gauji afmælisgjöf frá yngri systkinum sínum, forláta lopapeysu.
Hin myndin er af föðurbræðrum mínum. Ansi hreint smellin :-)
En annars fór dagurinn í dag í ýmis smærri mál sem þurfti að vinna úr. Meirihlutafundur í kvöld, dagskrá bæjarstjórnar á fimmtudaginn er nú ekki löng en hún lengdist nú væntanlega við tillögu sem minnihlutinn sendi mér í kvöld og felst í að þegar í stað verði hafnar sameiningarviðræður við Sveitarfélagið Ölfus með það að markmiði að næst verði kosið í sameinuðu sveitarfélagi. Tillagan barst ekki fyrir meirihlutafund svo ekki náðist að ræða hana þar. Sjáum hvað setur !
Comments:
Skrifa ummæli