10. janúar 2012
Vann í málum tengdum Hamarshöllinni í dag en nú þarf að greiða fyrir húsið í samræmi við ákvæði samningsinn um kaupin á Hamarshöllinni. Þetta er nokkuð sérstakt þar sem við erum að tryggja greiðslu núna án þess þó að aurinn fari til seljanda fyrr en húsið er komið hingað. Átti nokkur viðtöl við fólk í dag vegna starfsmannamála og velferðarmála. Enginn kom á fundi dagsins þar sem veðrið bauð ekki uppá útivist. Við ætluðum að hittast hér í dag bæjarstjórar í Ölfusi, Árborg og Hveragerði en breyttum fundinum snarlega í símafund. Það var virkilega góð ákvörðun. Ræddum velferðarmál sem við þurfum að fá lendingu í. Sendi út fundarboð bæjarstjórnar og sem betur fer náði ég Alberti með mér sem klifraði yfir ruðninga og klofaði skafla með fundarboðið í húsin.
Rafmagnið hefur verið með leiðindi í kvöld og blikkað stöðugt, þó haldist inni. Rafmagn fór aftur á móti af Hellisheiðarvirkjun sem er snúið mál, enda mikið verk að ná virkjuninni aftur í gang. Heyrði í þeim Orkuveitumönnum vegna þessa og verð aftur í sambandi við þá á morgun.
Í dag var ákveðið að íbúar gætu mætt á gámasvæðið með fötur og náð sér í sand og/eða salt til að nýta til hálkuvarna. Þetta virðist mælast vel fyrir allavega hefur þessi tilkynning fengið mikinn hljómgrunn á Facebook.
Laufey og Elli eru í suður Thailandi núna komin í þjóðgarðinn Khao Sok. Flottur staður þar sem stærsta blóm heims finnst í frumskóginum. Bað um afleggjara/fræ fyrir Blóm í bæ :-)
Comments:
Skrifa ummæli