27. október 2011
Í sumar hefur verið unnið að heilmiklum breytingum í Verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk og hafa þær tekist vel. Sýningin Skjálftinn 2008 sem gerir grein fyrir afleiðingum jarðskjálftans þann 29. maí 2008 hefur vakið heilmikla eftirtekt og vonumst við til að hún auki enn straum ferðamanna í bæjarfélagið. Reyndar finnst okkur að komum ferðamanna sé að fjölda en í gær hitti ég Sigurdísi, forstöðumann Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands hér í Hveragerði en samkvæmt henni kemur fjöldinn allur af rútum í Upplýsingamiðstöðina á degi hverjum. Við sjáum einnig heilmikla aukningu í komum ferðamanna í Hveragarðinn í miðbænum en ætli komur þangað árið 2011 endi ekki nærri tuttugu þúsund. Það þykir harla gott í þessum bransa. Í Listasafnið eru þegar komnir rétt tæplega tíu þúsund gestir þetta árið og mun Inga væntanlega ná að slá met í ár. Nú þurfum við að kynna þetta allt saman enn betur fyrir ferðaþjónustunni til að tryggja enn fleiri gesti næsta ár.
Comments:
Skrifa ummæli