22. júní 2011
Undirbúningur fyrir Garðyrkju- og blómasýninguna Blóm í bæ er nú á lokastigi. Í gærkvöldi unnu sjálfboðaliðar að hreinsun beða í Lystigarðinum og blómaskreytar unnu út um allan bæ við hinar glæsilegustu skreytingar. Gríðarlegu magni af blómum hefur verið ekið inní bæjarfélagið og prýða þau nú meðal annars stæðilegan gíraffa, apa og ljón á sýningarsvæðinu auk þess sem í Lystigarðinum er komin upp sýning á trjáplöntum og sumarblómum. Í íþróttahúsinu er nú unnið hörðum höndum að uppsetningu á glæsilegri blómasýningu sem opnar um leið og sýningarsvæðið allt á morgun, föstudag kl. 12. Fjöldi dagskráratriða verður alla helgina og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Tískusýning blómanna er skemmtileg nýjung sem verður á sviði í Lystigarðinum laugardag og sunnudag. Fræðslugöngur um skógræktarsvæði Hvergerðinga og söguslóðir verða alla dagana. Örfyrirlestrar, ljóðablómastaurar, leitin að hæsta tré Hveragerðis og garðasúpa á laugardagskvöldinu er meðal þess sem gestir sýningarinnar geta notið um helgina. Setning sýningarinnar fer frá í Lystigarðinum í dag, fimmtudag, kl. 17. Allir eru hjartanlega velkomnir en þar verður sólstöðum fagnað að norrænum sið.
Rétt er síðan að minna á að allir dagskrárliðir sýningarinnar eru ókeypis. Frá höfuðborgarsvæðinu gengur Strætó til Hveragerðis en leið 51 fer frá Mjódd í samræmi við áætlun. Áætlunin er á www.straeto.is
Nánari upplýsingar um dagskrá helgarinnar er að finna á heimasíðu sýningarinnar www.blomibae.is.
Comments:
Skrifa ummæli