28. ágúst 2006
Blómstrandi dagar heppnuðust vel og fjöldi gesta lagði leið sína hingað til Hveragerðis um helgina. Tjaldsvæðið yfirfylltist og húsbílum og hjólhýsum var lagt á víð og dreif um bæinn. Fjöldinn olli rafkerfi tjaldsvæðisins örlitlum vandræðum því þrátt fyrir að hafa verið stórbætt fyrr í sumar þá annar það ekki öðrum eins fjölda og hér var um helgina. En aðrir hnökrar voru fáir og gaman að sjá hversu margir tóku þátt í bæjarhátíðinni með Hvergerðingum.
Hátíðin var sett með glæsilegum fiðlutónleikum Huldu Jónsdóttur en hún er að hefja nám við Listaháskóla Íslands nú í haust, yngsti nemandinn þar frá upphafi enda er hún aðeins 15 ára. Síðan rak hver dagskrárliðurinn annan, útitónleikar, Gunni og Felix, afhending verðlauna fyrir fegurstu garðana, myndlistarsýningar, markaðstorg, hundasýning, jazztónleikar, Baggalútur og fjölmargt fleira. Hápunktur helgarinnar var brekkusöngur og flugeldasýning í listigarðinum. Eyjólfur Kristjáns stjórnaði fjöldasöng og mannfjöldinn sem troðfyllti listigarðinn tók vel undir. Eftir flugeldasýninguna streymdi fólk að Hótel Örk þar sem Brimkló með Bjögga Halldórs í broddi fylkingar hélt uppi stuðinu fram eftir nóttu. Ég held að sjaldan hafi fleiri verið á balli á Örkinni en húsið var sneisafullt svo ekki sé nú talað um dansgólfið.
Bæjarfulltrúarnir grilluðu fyrir gesti hátíðarinnar á laugardag, á myndinni hér til hliðar má sjá að mikið gekk á enda margir sem þáðu pylsur og gos.
Bjössi á Bláfelli tók fullt af myndum um helgina og þær má sjá hér.
Comments:
Skrifa ummæli