14. maí 2006
Við fengum góða heimsókn á kosningaskrifstofuna í dag sunnudag þegar Geir Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir litu við og heilsuðu uppá mannskapinn. Meðfylgjandi mynd var tekin af nokkrum frambjóðendum með þeim hjónum í góða veðrinu á sunnudag.
----------------------------------
Árshátíð Hveragerðisbæjar var haldin á Hótel Örk á laugardagskvöldið. Góður matur og fín hljómsveit á ballinu, en Idol sveitin Ísafold hélt uppi góðu fjörí frameftir nóttu. Óvanalegt að engin skemmtiatriði skyldu vera frá hinum ýmsu vinnustöðum en rætt var um að árshátíð haldin um miðjan maí hefði eitthvað dregið úr hugmyndaregninu sem annars hefur ríkt á þessum skemmtunum.
-----------------------------------
Á föstudaginn dreifðum við frambjóðendurnir aftur blaði í öll hús. Létum vera að banka í þetta skipti. En hér má lesa blaðið í heild sinni.
-----------------------------------
Kosningabaráttan er enn með rólegra móti, en það hlýtur að fara að færast fjör í leikinn. Við Sjálfstæðismenn stefnum á konukvöld þann 24. maí. Glæsileg skemmtun þar sem konur í Hveragerði munu eiga saman góða kvöldstund.
-----------------
Ég var búin að lofa nokkrum vísum af hagyrðingakvöldinu góða. Hér eru nokkrar eftir Bjarna Stefán Konráðsson.
Skilst að þessi sé ort um okkur Herdísi í tilefni af bókana gleðinni sem ríkt hefur í bæjarstjórn:
Við borðið kúra konur tvær
og kýta eins og hinir.
Eru nöfnur orðnar þær
úrvals pennavinir.
Um fundina:
Fyrst var kaffi,svo ég sé
að sest var að góðum blundi.
Svo var bókað, svo var hlé,
svo var slitið fundi.
Um oddvita minnihlutans og andstöðu hennar á háhýsum:
Nú er Aldís súr að sjá,
sýnist allt í báli.
Staðfastlega staglast á
að stærðin skipti máli.
Um Unni þriðju, sem hjúkrar ekki heimamönnum í Ölfusi, heldur Selfyssingum:
Við Ölfusinga yfirleitt
ekki nokkuð þingar,
Því Unnur fór víst aldrei neitt
útí geðlækningar.
Comments:
Skrifa ummæli