22. október 2005
Fundahöld vikuna 17.-21. október 2005
Bloggið hefur orðið útundan þessa vikuna og er það ekki til fyrirmyndar.
Bæti úr því hér með. Í staðinn verður þetta óheyrilega löng rulla sem hér birtist. Lesendur eru beðnir velvirðinar á því ! !
Vikan byrjaði á bæjarráðsfundi á mánudagsmorgun þar sem hin árlega heimsóknaferð í stofnanir bæjarins hófst. Byrjuðum í grunnskólanum þar sem að vanda var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Lögðum sérstaka áherslu á að skoða sérkennslu aðstöðuna þar sem sífelldar breytingar eiga sér stað á högum deildarinnar. Nú fer sérkennsla fram í litum hópum á fjölmörgum stöðum innan skólans en sífellt fleiri nemendur njóta sérkennslu.
Verkmenntaálman var ekki heimsótt enda þekkja flestir mætavel til þess ástands sem þar ríkir. Afar brýnt er að þegar verði hafist handa við hönnun á nýrri álmu og stefnt að byggingu hennar eins fljótt og auðið er.
Í sundlauginni í Laugaskarði stendur gæsluskúrinn enn ókláraður þrátt fyrir að í vor þegar sá gamli var rifinn hafi átt að koma þessum upp á örfáum vikum. Það voru rökin fyrir því að meirihlutinn vildi ekki kanna möguleika á nýrri staðsetningu þar sem sundlaugarverðir hefðu betri yfirsýn yfir laugarsvæðið.
Nú þegar nóvember bankar á dyrnar hafa sundlaugarverðir enga aðstöðu utandyra og ljóst að nægur tími hefur gefist til að standa sómasamlega að endurnýjuninni. Það var aftur á móti ekki gert. Þess bera vitni handklæðin sem liggja allt í kringum bygginguna til að verja hana vatnsskemmdum, ekkert opnanlegt fag er á skúrnum og engin loftræsting. Ólitað gler er í öllum hliðum þannig að óhætt er að segja að starfsmönnum muni líða eins og í sultukrukku þegar þeir loks geta sest í skúrinn ! ! !
Í Laugaskarði er forgangsverkefni að tryggja aðgengi fyrir alla, það hefur verið á dagskrá núverandi meirihluta megnið af þessu kjörtímabili en mun ekki nást fyrr en á því næsta með sama áframhaldi.
Leikskólinn Undraland hefur fengið ágæta andlitslyftingu í sumar en búið er að mála og endurnýja húsið utanhúss. Ýmislegt smálegt þarf þó að laga en það er óþarfi að starfsmenn ergi sig til lengdar á hlutum sem hægt er að laga með litlum tilkostnaði.
Bæjarráð mun heimsækja aðrar stofnanir bæjarins á næsta fundi sínum.
-----------------------------------
Á þriðjudeginum var fundur í bygginganefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands. Sú nefnd hefur haft umsjón með byggingu íþróttahússins Iðu. Unnið er að samkomulagi við verktaka um verklok og höfum við góðar vonir um að það muni takast fljótlega. Almenn ánægja ríkir með húsið og er það afar vel nýtt bæði af nemendum skólans sem og af íbúum Árborgar.
Á þriðjudagskvöldinu hittist MA oktettinn sem við köllum svo hjá Jóhönnu Magnúsar. Þetta eru alltaf skemmtilegar stundir enda mikið spjallað. Við höfum þekkst síðan við vorum saman í Menntaskóla en þar vorum við saman á vistinni, flestar okkar öll fjögur árin.
------------------------------------
Skrapp til Reykjavíkur vegna tannréttinga sonarins á miðvikudag. Um kvöldið var síðan fundur í blaðstjórn Bláhvers. Lögðum þar línurnar fyrir starfið sem framundan er. Góður og öflugur hópur skipar blaðstjórnina sem óhætt er að vænta mikils af.
----------------------------------------------
Þétt dagskrá var á fimmtudaginn en strax eftir vinnu var fundur í skólanefnd FSU.
Við skólann eru nú skráðir 987 nemendur sem er nýtt met. Þetta met er reyndar slegið á hverju ári þannig að enginn kippir sér lengur upp við það. Nú styttist í að nemendafjöldi fari yfir 1000 en það er óneitanlega nokkuð stór áfangi.
Á fundinum var rætt um brottfall nemenda, nýja eyktaskipan, nemendagarðana, körfuboltaakademíuna, skólaakstur, hestaíþróttir og fleira.
Það er ánægjulegt að í fjárlagafrumvarpinu 2006 er gert ráð fyrir auknu framlagi til skólans vegna kennslu nemenda sem heyra undir Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Er þetta mikil viðurkenning á því mikla og góða starfi sem farið hefur fram í skólanum undanfarin ár.
Mér gafst rétt um hálftími til að heilsa dótturinni sem komin var að austan áður en bæjarstjórnarfundur byrjaði klukkan 19. Hún mun reyndar ekki stoppa mikið heimavið í þetta skiptið, það er nefnilega Airwaves hátíðin sem dregur hana suður.
Á bæjarstjórnarfundinum bar ýmislegt til tíðinda meðal annars lögðum ég og Elínborg Ólafsdóttir fram tillögu um að konur í vinnu hjá Hveragerðisbæ haldi fullum launum taki þær þátt í kvennafrídeginum frá og með klukkan 14:08 næstkomandi mánudag. Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum en Herdís Þórðardóttir og Hjalti Helgason sátu hjá.
Ég, Hjalti og Elínborg lögðum ennfremur fram tillögu um að íþrótta- og æskulýðsfulltúa verði falið að gera tillögu til bæjarráðs um lýsingu sundlaugarkersins í Laugaskarði með ljósum sem yrðu undir vatnsyfirborðinu.
Í vettvangsheimsókn bæjarráðs í Laugaskarði kom fram að til stendur að lýsa sundlaugina með tveimur öflugum kösturum. Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að lýsing undir vatnsyfirborði sé mun betri og tryggi öryggi sundlaugagesta sem og aðstöðu sundlaugarvarða með allt öðrum hætti en kastarar geta gert. Samkvæmt gögnum sem við lögðum fram væri hægt að lýsa sundlaugarkerið með þessum hætti fyrir upphæð sem væri ekki langt frá þeim kostnaði sem hlýst af uppsetningu staura og kastara.
----------
Æðibunugangur meirihlutans er oft alveg furðulegur. Fyrir mánuði síðan lagði bæjarstjórinn fram tillögu um lagningu hraðahindrana og gangbrauta yfir Breiðumörkina á tveimur stöðum. Tillagan fór til skipulagsnefndar sem fól sérfræðingum að vinna hana betur. Síðan hefur ekkert gerst en allir virðast hafa gleymt að ýta á eftir skipulagsvinnunni. Samt þykir þeim tilhlýðilegt að láta bæjarstjórn samþykkja að fela bæjarstjóra að setja niður þessar hraðahindranir án þess að leggja útfærsluna fyrir skipulagsnefnd eða bæjarráð/bæjarstjórn.
Það er ekki skrýtið þó maður spyrji sig hvað meirihlutinn sé yfirleitt að gera með nefndakerfi ! !
--------
Á fundinum var samþykkt að óska eftir heimild Skipulagsstofnunar til að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Hveragerðis 2005 - 2017. Ég stóð að þeirri samþykkt með eftirfarandi bókun:
Þar sem almenn þverpólitísk sátt hefur ríkt um langflest atriði í aðalskipulagsvinnunni samþykki ég tillöguna þrátt fyrir að vera á móti fyrirhugaðri nýtingu á Ullarþvottastöðvarlóðinni við Dynskóga og undrast um leið að ekki skuli tekið tillit til eindreginna skoðana bæjarbúa sem komið hafa fram á íbúafundum undanfarið.
Enn og aftur hlýtur maður að spyrja sig; er enginn að hlusta á íbúafundunum?
Til hvers er búið að halda 3 fundi um þetta mál ef ekki á að hlusta á það sem þar hefur komið fram.
Ég man að "einhver flokkur" talaði fjálglega um íbúalýðræði fyrir síðustu kosningar, held að sá flokkur hafi á leiðinni týnt stefnuskránni i heild sinni !!!
----------
Við Sjálfstæðismenn lögðum einnig fram eftirfarandi tillögur:
Bæjarstjórn samþykkir að þeir starfsmenn leikskóla bæjarfélagsins sem sækja fjarnám til B.Ed prófs í leikskólafræðum haldi héðan í frá föstum launum sínum þrátt fyrir að þurfa að sækja kennslu og þjálfun á vinnutíma sínum.
Í ljós hefur komið að í nágrannasveitarfélögum okkar er starfsmönnum gert kleift að afla sér fagþekkingar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, það er án þess að skerðast verulega í launum á meðan. Okkur þykir eðlilegt að sami háttur verði hafður á hér enda hlýtur það að vera Hveragerðingum kappsmál að á leikskólum bæjarins starfi eins margir menntaðir leikskólakennarar eins og völ er á.
Þessi tillaga virtist fara fyrir brjóstið á meirihlutanum allavega brugðust þau við með hefðbundnum hætti, kölluðu mig Ragnar Reykás sem gerist reyndar á hverjum fundi núorðið. Slagorðafátæktin er hrópleg að verða:-)
Þau felldu síðan tillöguna með þeim orðum að í því fælist ábyrgðaleysi gagnvart fjármunum almennings að leggja fram tillögu að þessari stærðargráðu án þess að hún sé kostnaðargreind. Fyrir þau útgjöld sem tillagan felur væntanlega í sér töldu þau margar leiðir færar til fjölga leikskólakennurum í Hveragerði og efla leikskólastarf enn frekar.
Nú getum við ekki beðið eftir að sjá hversu mikið meirihlutinn ætlar að hækka laun allra starfsmanna eins og þau sögðust geta gert í stað þess að samþykkja tillögu okkar.
Ég dreg einnig í efa að af þessari tillögu hlytist jafn umtalsverður kostnaður og af er látið því eftir því sem mér hefur heyrst er reynt af fremst megni að leysa málin innanhúss með eins lítilli fjölgun stöðugilda og hægt er. Það verður að teljast undarlegt ef bæjarfélagið ætlar sér að hagræða með því að starfsmenn séu hafðir launalausir við að afla sér réttinda ! !
Ennfremur lögðum við til að bæjarstjórn samþykkti að fela bæjarstjóra að móta drög að starfsreglum varðandi endurmenntun starfsmanna bæjarfélagsins og leggja fyrir bæjarráð eigi síðar en á fyrsta fundi ársins 2006.
Þessi tillaga fékkst samþykkt en í henni felst að mörkuð verði stefna í endurmenntunarmálum og þar verði meðal annars ákveðið hvernig mál eins og það sem að ofangreinir verður afgreitt í framtíðinni.
------
Endurskoðuð fjárhagsáætlun var lögð fyrir fundinn og sýndi ágæta stöðu. Helgast það ekki síst af þeirri staðreynd að Tívolí lóðin var seld fyrir 50 milljónir nú nýverið. Án þess hefði staðan verið með öðrum hætti.
Það verður spennandi að sjá hvort ársreikningur muni endurspegla væntingarnar sem koma fram í endurskoðuninni.
------
Á fundinum lagði ég fram bréf þar sem ég óskaði eftir lausn frá störfum í Skipulags- og bygginganefnd. Í minn stað kemur Örn Guðmundsson.
-----------------------------------
Bloggið hefur orðið útundan þessa vikuna og er það ekki til fyrirmyndar.
Bæti úr því hér með. Í staðinn verður þetta óheyrilega löng rulla sem hér birtist. Lesendur eru beðnir velvirðinar á því ! !
Vikan byrjaði á bæjarráðsfundi á mánudagsmorgun þar sem hin árlega heimsóknaferð í stofnanir bæjarins hófst. Byrjuðum í grunnskólanum þar sem að vanda var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Lögðum sérstaka áherslu á að skoða sérkennslu aðstöðuna þar sem sífelldar breytingar eiga sér stað á högum deildarinnar. Nú fer sérkennsla fram í litum hópum á fjölmörgum stöðum innan skólans en sífellt fleiri nemendur njóta sérkennslu.
Verkmenntaálman var ekki heimsótt enda þekkja flestir mætavel til þess ástands sem þar ríkir. Afar brýnt er að þegar verði hafist handa við hönnun á nýrri álmu og stefnt að byggingu hennar eins fljótt og auðið er.
Í sundlauginni í Laugaskarði stendur gæsluskúrinn enn ókláraður þrátt fyrir að í vor þegar sá gamli var rifinn hafi átt að koma þessum upp á örfáum vikum. Það voru rökin fyrir því að meirihlutinn vildi ekki kanna möguleika á nýrri staðsetningu þar sem sundlaugarverðir hefðu betri yfirsýn yfir laugarsvæðið.
Nú þegar nóvember bankar á dyrnar hafa sundlaugarverðir enga aðstöðu utandyra og ljóst að nægur tími hefur gefist til að standa sómasamlega að endurnýjuninni. Það var aftur á móti ekki gert. Þess bera vitni handklæðin sem liggja allt í kringum bygginguna til að verja hana vatnsskemmdum, ekkert opnanlegt fag er á skúrnum og engin loftræsting. Ólitað gler er í öllum hliðum þannig að óhætt er að segja að starfsmönnum muni líða eins og í sultukrukku þegar þeir loks geta sest í skúrinn ! ! !
Í Laugaskarði er forgangsverkefni að tryggja aðgengi fyrir alla, það hefur verið á dagskrá núverandi meirihluta megnið af þessu kjörtímabili en mun ekki nást fyrr en á því næsta með sama áframhaldi.
Leikskólinn Undraland hefur fengið ágæta andlitslyftingu í sumar en búið er að mála og endurnýja húsið utanhúss. Ýmislegt smálegt þarf þó að laga en það er óþarfi að starfsmenn ergi sig til lengdar á hlutum sem hægt er að laga með litlum tilkostnaði.
Bæjarráð mun heimsækja aðrar stofnanir bæjarins á næsta fundi sínum.
-----------------------------------
Á þriðjudeginum var fundur í bygginganefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands. Sú nefnd hefur haft umsjón með byggingu íþróttahússins Iðu. Unnið er að samkomulagi við verktaka um verklok og höfum við góðar vonir um að það muni takast fljótlega. Almenn ánægja ríkir með húsið og er það afar vel nýtt bæði af nemendum skólans sem og af íbúum Árborgar.
Á þriðjudagskvöldinu hittist MA oktettinn sem við köllum svo hjá Jóhönnu Magnúsar. Þetta eru alltaf skemmtilegar stundir enda mikið spjallað. Við höfum þekkst síðan við vorum saman í Menntaskóla en þar vorum við saman á vistinni, flestar okkar öll fjögur árin.
------------------------------------
Skrapp til Reykjavíkur vegna tannréttinga sonarins á miðvikudag. Um kvöldið var síðan fundur í blaðstjórn Bláhvers. Lögðum þar línurnar fyrir starfið sem framundan er. Góður og öflugur hópur skipar blaðstjórnina sem óhætt er að vænta mikils af.
----------------------------------------------
Þétt dagskrá var á fimmtudaginn en strax eftir vinnu var fundur í skólanefnd FSU.
Við skólann eru nú skráðir 987 nemendur sem er nýtt met. Þetta met er reyndar slegið á hverju ári þannig að enginn kippir sér lengur upp við það. Nú styttist í að nemendafjöldi fari yfir 1000 en það er óneitanlega nokkuð stór áfangi.
Á fundinum var rætt um brottfall nemenda, nýja eyktaskipan, nemendagarðana, körfuboltaakademíuna, skólaakstur, hestaíþróttir og fleira.
Það er ánægjulegt að í fjárlagafrumvarpinu 2006 er gert ráð fyrir auknu framlagi til skólans vegna kennslu nemenda sem heyra undir Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Er þetta mikil viðurkenning á því mikla og góða starfi sem farið hefur fram í skólanum undanfarin ár.
Mér gafst rétt um hálftími til að heilsa dótturinni sem komin var að austan áður en bæjarstjórnarfundur byrjaði klukkan 19. Hún mun reyndar ekki stoppa mikið heimavið í þetta skiptið, það er nefnilega Airwaves hátíðin sem dregur hana suður.
Á bæjarstjórnarfundinum bar ýmislegt til tíðinda meðal annars lögðum ég og Elínborg Ólafsdóttir fram tillögu um að konur í vinnu hjá Hveragerðisbæ haldi fullum launum taki þær þátt í kvennafrídeginum frá og með klukkan 14:08 næstkomandi mánudag. Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum en Herdís Þórðardóttir og Hjalti Helgason sátu hjá.
Ég, Hjalti og Elínborg lögðum ennfremur fram tillögu um að íþrótta- og æskulýðsfulltúa verði falið að gera tillögu til bæjarráðs um lýsingu sundlaugarkersins í Laugaskarði með ljósum sem yrðu undir vatnsyfirborðinu.
Í vettvangsheimsókn bæjarráðs í Laugaskarði kom fram að til stendur að lýsa sundlaugina með tveimur öflugum kösturum. Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að lýsing undir vatnsyfirborði sé mun betri og tryggi öryggi sundlaugagesta sem og aðstöðu sundlaugarvarða með allt öðrum hætti en kastarar geta gert. Samkvæmt gögnum sem við lögðum fram væri hægt að lýsa sundlaugarkerið með þessum hætti fyrir upphæð sem væri ekki langt frá þeim kostnaði sem hlýst af uppsetningu staura og kastara.
----------
Æðibunugangur meirihlutans er oft alveg furðulegur. Fyrir mánuði síðan lagði bæjarstjórinn fram tillögu um lagningu hraðahindrana og gangbrauta yfir Breiðumörkina á tveimur stöðum. Tillagan fór til skipulagsnefndar sem fól sérfræðingum að vinna hana betur. Síðan hefur ekkert gerst en allir virðast hafa gleymt að ýta á eftir skipulagsvinnunni. Samt þykir þeim tilhlýðilegt að láta bæjarstjórn samþykkja að fela bæjarstjóra að setja niður þessar hraðahindranir án þess að leggja útfærsluna fyrir skipulagsnefnd eða bæjarráð/bæjarstjórn.
Það er ekki skrýtið þó maður spyrji sig hvað meirihlutinn sé yfirleitt að gera með nefndakerfi ! !
--------
Á fundinum var samþykkt að óska eftir heimild Skipulagsstofnunar til að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Hveragerðis 2005 - 2017. Ég stóð að þeirri samþykkt með eftirfarandi bókun:
Þar sem almenn þverpólitísk sátt hefur ríkt um langflest atriði í aðalskipulagsvinnunni samþykki ég tillöguna þrátt fyrir að vera á móti fyrirhugaðri nýtingu á Ullarþvottastöðvarlóðinni við Dynskóga og undrast um leið að ekki skuli tekið tillit til eindreginna skoðana bæjarbúa sem komið hafa fram á íbúafundum undanfarið.
Enn og aftur hlýtur maður að spyrja sig; er enginn að hlusta á íbúafundunum?
Til hvers er búið að halda 3 fundi um þetta mál ef ekki á að hlusta á það sem þar hefur komið fram.
Ég man að "einhver flokkur" talaði fjálglega um íbúalýðræði fyrir síðustu kosningar, held að sá flokkur hafi á leiðinni týnt stefnuskránni i heild sinni !!!
----------
Við Sjálfstæðismenn lögðum einnig fram eftirfarandi tillögur:
Bæjarstjórn samþykkir að þeir starfsmenn leikskóla bæjarfélagsins sem sækja fjarnám til B.Ed prófs í leikskólafræðum haldi héðan í frá föstum launum sínum þrátt fyrir að þurfa að sækja kennslu og þjálfun á vinnutíma sínum.
Í ljós hefur komið að í nágrannasveitarfélögum okkar er starfsmönnum gert kleift að afla sér fagþekkingar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, það er án þess að skerðast verulega í launum á meðan. Okkur þykir eðlilegt að sami háttur verði hafður á hér enda hlýtur það að vera Hveragerðingum kappsmál að á leikskólum bæjarins starfi eins margir menntaðir leikskólakennarar eins og völ er á.
Þessi tillaga virtist fara fyrir brjóstið á meirihlutanum allavega brugðust þau við með hefðbundnum hætti, kölluðu mig Ragnar Reykás sem gerist reyndar á hverjum fundi núorðið. Slagorðafátæktin er hrópleg að verða:-)
Þau felldu síðan tillöguna með þeim orðum að í því fælist ábyrgðaleysi gagnvart fjármunum almennings að leggja fram tillögu að þessari stærðargráðu án þess að hún sé kostnaðargreind. Fyrir þau útgjöld sem tillagan felur væntanlega í sér töldu þau margar leiðir færar til fjölga leikskólakennurum í Hveragerði og efla leikskólastarf enn frekar.
Nú getum við ekki beðið eftir að sjá hversu mikið meirihlutinn ætlar að hækka laun allra starfsmanna eins og þau sögðust geta gert í stað þess að samþykkja tillögu okkar.
Ég dreg einnig í efa að af þessari tillögu hlytist jafn umtalsverður kostnaður og af er látið því eftir því sem mér hefur heyrst er reynt af fremst megni að leysa málin innanhúss með eins lítilli fjölgun stöðugilda og hægt er. Það verður að teljast undarlegt ef bæjarfélagið ætlar sér að hagræða með því að starfsmenn séu hafðir launalausir við að afla sér réttinda ! !
Ennfremur lögðum við til að bæjarstjórn samþykkti að fela bæjarstjóra að móta drög að starfsreglum varðandi endurmenntun starfsmanna bæjarfélagsins og leggja fyrir bæjarráð eigi síðar en á fyrsta fundi ársins 2006.
Þessi tillaga fékkst samþykkt en í henni felst að mörkuð verði stefna í endurmenntunarmálum og þar verði meðal annars ákveðið hvernig mál eins og það sem að ofangreinir verður afgreitt í framtíðinni.
------
Endurskoðuð fjárhagsáætlun var lögð fyrir fundinn og sýndi ágæta stöðu. Helgast það ekki síst af þeirri staðreynd að Tívolí lóðin var seld fyrir 50 milljónir nú nýverið. Án þess hefði staðan verið með öðrum hætti.
Það verður spennandi að sjá hvort ársreikningur muni endurspegla væntingarnar sem koma fram í endurskoðuninni.
------
Á fundinum lagði ég fram bréf þar sem ég óskaði eftir lausn frá störfum í Skipulags- og bygginganefnd. Í minn stað kemur Örn Guðmundsson.
-----------------------------------
Comments:
Skrifa ummæli