28. febrúar 2004
Vetrarstemning á Króknum!
Skruppum norður á Sauðárkrók og ferðalagið þangað minnti mann á þau ósköp sem landsbyggðarþingmenn mega þola. Það er vonlaust að ætla að sinna kjördæmi sínu með hefðbundnum hætti þegar það nær frá Hvalfirði, norður um alla Vestfirði og nær því út að Siglufirði. Tíminn sem fer í bílferðir hlýtur að vera gífurlegur og væri honum örugglega betur varið í annað. Þingmenn þéttbýliskjördæmanna á Suðvesturhorninu geta síðan látið sér duga að rölta um í Smáralindinni eða um Laugaveginn og hafa þá hitt fleiri kjósendur heldur en veslings landsbyggðarþingmennirnir geta gert sér vonir um á margra daga þeytingi um þjóðvegi landsins. Er þetta réttlátt kerfi? Ég held ekki enda hef ég fulla trú á því að við munum ekki kjósa oft eftir þessum reglum. Hvort landið verður þá gert að einu kjördæmi eða jafnvel fjölmörgum smáum einmenningskjördæmum ætla ég ekki að spá um, en eitthvað mun breytast. Það er lítið réttæti í þessu eins og það er í dag.
--------------------------
Landsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki í sumar og skoðuðum við íþróttasvæðið þar nú í morgun. Þarna hefur Sporttækni, fyrirtækið hans Sigurðar Einarssonar, gert aðstöðu sem er eins og best gerist erlendis. Hlaupabrautir semog öll frjálsíþróttaaðstaðan er til mikillar fyrirmyndar og nú er bara eftir að planta og ganga frá umhverfinu. Tjaldstæði á að útbúa uppá Nöfunum en þaðan er frábært útsýni út Skagafjörðinn og yfir íþróttavellina þannig að ekki ætti að væsa um gesti í sumar.
Comments:
Skrifa ummæli