4. júlí 2021
Sumar í blómabænum
Veðrið á laugardaginn var eins og það best gerist hér sunnan heiða. Sól og um 20 stiga hiti allan daginn. Notaði tækifærið og bekk upp að Skífu með Bjarna Rúnari og Lárusi Nóa sem átti öruggt sæti í bakpoka pabba síns. Þetta var bæði líkamsrækt og upplifun enda fórum við með nesti og nutum því útsýnis og veitinga frá Skífunni. Þessi gönguleið er alveg hreint einstök. Algjörlega passlega löng og þolanlega krefjandi og þarna má svo finna alls konar dældir og bala þar sem hægt er að leggjast og týnast algjörlega, borða nestið sitt og slappa af ef stemning er fyrir því.
Um helgina gisti Lárus Nói hjá ömmu og afa á meðan að pabbi og mamma slöppuðu af enda er litli bróður væntanlegur eftir um það bil mánuð og því verður nóg að gera á þeim bænum þegar hann kemur í heiminn.
Helgin fór annars að stóru leyti í stúss í garðinum en nú er ég líka búin að koma öllu sem ég sáði í ker og potta. Held ég verði að hemja mig aðeins næsta vor og sá örlítið minna en ég gerði núna. En þetta er bara svo gaman og svo litríkt og flott :-)
Skrapp reyndar á sýningaropnun í Listasafninu sem var skemmtileg og fengum svo góða gesti á laugardagskvöldinu sem gaman var spjalla við.
Comments:
Skrifa ummæli