1. júlí 2021
Bænum tryggð yfirráð yfir enn meira landi
Fundur bæjarráðs í morgun þar sem nokkur stór mál voru tekin til afgreiðslu. Samningur um kaup á öllu Öxnalækjarlandinu var samþykktur og þar með eignast bæjarfélagið yfirráð yfir öllu því landi sem Eyjólfur Konráð Jónsson, ráðherra, keypti á sínum tíma. Hann var ótrúlega framsýnn þegar hann sem kornungur maður keypti Öxnalækinn og þar með stóran hlut af því landi sem Hveragerði byggir í dag. Það er mikill kostur fyrir bæjarfélagið til framtíðar að eignarhald og yfirráð þar með yfir landinu sé í höndum Hvergerðinga. Með kaupunum eignast bærinn einnig hlut fjölskyldu Eykons í félagi sem á stórt land fyrir neðan þjóðveg. Það er gott að vera þar komin að borðinu þegar framtíð þess lands verður ákveðin.
Í dag var einnig samþykkt að ganga til samninga við Íslenska gámafélagið um sorphirðu og förgun en þeir voru lægstir í útboði sem Ríkiskaup sá um fyrir Hveragerðisbæ. Eftir fundinn fór hópurinn og skoðaði viðbygginguna við grunnskólann en þar er nú verið að dúkleggja og setja upp innréttingar, ekkert bendir til annars en að það verk verði á áætlun. Mér finnst þessi viðbygging alveg einstaklega vel heppnuð og dr. Maggi Jónsson hefur þarna hannað einstakt hús sem kallast svo fallega á við umhverfi sitt að eftir því er tekið. Við heimsóttum líka sundlaugina þar sem nú er verið að endurnýja búningsklefana, það er bæði flókið verk og krefjandi þar sem í svona gömlu húsi leynast alls konar verkefni sem enginn gat séð fyrir þegar verkið var skipulagt í upphafi. En með hverri heimsókninni sé ég betur að þarna hefur vel tekist til í hönnun og ég vona að bæjarbúar verði sammála um það þegar laugin opnar aftur.
Comments:
Skrifa ummæli