6. júlí 2021
Hlíðarhagi - deiliskipulag og eldra fólk
Þegar skipulagsferli er lokið þarf bæjarstjóri að undirrita nýtt deiliskipulag og þar með fer það í auglýsingu og tekur gildi. Í dag undirritaði ég nýtt deiliskipulag fyrir Hlíðarhagalandið en það eiga einkaaðilar sem hafa í hyggju að byggja þar 45 íbúðir í eins og tveggja hæða húsum. Þetta land sem þið sjáið hér til hliðar stendur hátt, efst í byggðinni, undir klettóttum hlíðum Hamarsins og nýtur útsýnis eins og fáir aðrir. Beint a móti, hinu megin við Breiðumörk, er svo búið að skipulegga skemmtilega byggð sem væntanlega verður auglýst laus til úthlutunar á næstu mánuðum. Þarna munu því í framtíðinni búa um 150 manns miðað við meðaltöl íbúa pr. íbúð í Hveragerði. Það munar um minna!
Vil svo endilega deila með ykkur ansi góðum þætti um málefni hjúkrunarheimila og eldra fólks en þar ræddum ég og Haraldur Benediktsson, þingmaður, við Þorkel Sigurlaugsson um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir núna hvað varðar rekstrargrunn hjúkrunarheimila og einnig og ekki síst hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu þegar sífellt stærra hlutfall þjóðarinnar fyllir flokk þeirra sem eldri eru. Það er krefjandi verkefni sem okkur ber skylda til að mæta með eins góðum hætti og nokkur er kostur.
Hér í Hveragerði erum við svo lánsöm að hafa fjölbreytta búsetukosti fyrir eldra fólk og enn bætist við þegar að nýbygging við hjúkrunarheimilið verður að veruleika og svo ekki síður þegar um 90 íbúðir fyrir 50+ hópinn verða byggðar við Heilsustofnun á næstu árum. Endilega kíkið á deiliskipulag þess reits sem núna er til kynningar á gólfi og veggjum Verslunarmiðstöðvarinnar Sunnumörk og svo má finna allt um þetta nýja deiliskipulag á þessari slóð.