2. júlí 2021
Tvíbýli breytist í einbýli !
Dásmlegur dagur í blómabænum. Brakandi sól og blankalogn og hitinn náði um 20° þegar mest var.
Bæjarskrifstofan lokar á hádegi á föstudögum í sumar vegna styttingar vinnutímans. Er þetta tilraun og væntanlega föllum við í fyrra horf í haust. Það var óvenjugott að hætta snemma í dag og rölti ég fyrst til mömmu þar sem við sátum úti allar systurnar og hún og nutum sólar. Heima tók ég svo góða rispu í garðinum alveg fram að kvöldmat og nú eru öll beð sunnan við hús orðin fín og falleg. Það er góð tilfinning. Það verður svo ennþá betra á morgun þegar ég klára öll hin beðin aftan við hús. Þessi lóð er ansi stór og enginn hægðarleikur að halda henni þolanlegri.
En í vinnunni í morgun átti ég fund um spennandi tækifæri í atvinnuuppbyggingu sem ekki er tímabært að fjalla um á þessu stigi og strax á eftir annan um byggingu nýja hjúkrunarheimilisins. Þar styttist nú í forvalið en gert er ráð fyrir að það fari af stað í endaðan júlí byrjun ágúst. Aðferðafræðin við þessa uppbyggingu er ansi frábrugðin því sem við eigum að venjast þar sem við höfum þegar ákveðið hvað byggingin með búnaði mum kosta, nemur sú upphæð 1.001 m.kr. Öll tilboð eru því í sömu tölu en snúast um útfærslur og þær tillögur sem lagðar eru fram. Þarna munu verða 22 einbýli fyrir einstaklinga sem þurfa á hjúkrunarheimilisþjónustu að halda og því eru að bætast þarna við 4 ný pláss og ekki mun af veita. Staðsetning þessa húss er beint á mótu gömlu bæjarskrifstofunni, hinu megin við götuna og svo má ekki gleyma aðalatriðinu. Með tilkomu þessara rýma mun núverandi hjúkrunarheimili verða endurnýjað að fullu og þar með verða eingöngu einbýli á hjúkrunarheimilinu hér í bæ. Risastórt skref og mikilvægt fyrir alla íbúa og aðra sem njóta þjónustu hér á Ási.