30. júní 2021
Allt að gerast í blómabænum
Það er gaman í vinnunni alla daga enda nóg um að vera. Það hyllir undir lok margra verka og þó að önnur taki alltaf við þá eru svona áfangar alltaf svo skemmtilegir.
Framkvæmdir við endurnýjun búningsklefa sundlaugarinnar Laugaskarði eru á lokametrunum. Framkvæmdin stækkaði nokkuð eftir að hún hófst og þá ekki síst vegna aðstæðna á verkstað. Þar er stærst niðurrif göngubrúarinnar inn í húsið og bygging 50m2 rýmis undir nýrri göngubrú sem komið er upp. Einnig þurfti að fleyga ansi mikið og jarðvegsmóta sunnan við vestur enda hússins en þar er nú komið sjúkrarrými sem þarfnaðir aðlögunar að nærliggjandi landi. Ég vona að íbúar og gestir verði ánægðir með breytingarnar þegar húsið opnar og sundlaugin sem ætti að verða í kringum 10. júlí.
Viðbygging við grunnskólann er líka að klárast. Þar er nú unnið að dúklögn og uppsetningu innréttinga auk þess sem verið að leggja lokahönd á frágang lóðar. Gullfalleg bygging sem leikur fallega við lystigarðinn sem umlykur skólann núna. Svo má ekki gleyma að framundan eru næstu tveir áfangar viðbyggingar sem verða í sama stíl og þetta hús þannig að fullbyggður verður skólinn okkur til mikils sóma.
Greenhouse hótel er líka á lokastigi framkvæmda og opnar væntanlega í júli. Þar eru á fimmta tug gistiherbergja og 7-8 veitingasölur svo það ætti nú ekki að vanta veitingastaðina í bæjarfélagið á næstunni. Það má heldur ekki gleyma því að á N1 er nú unnið að því að opna Ísey skyrbar sem selur alls konar góða heilsurétti skilst mér. Þar verður sólpallur til suðurs sem verður án vafa vinsæll. Rétt eins og pallarnir eru hjá þeim veitingastöðum við Breiðumörk sem þess njóta.
Comments:
Skrifa ummæli