18. ágúst 2016
Forsíða Moggans í dag og tveggja síðna umfjöllun um Reykjadal. Eins og myndin sýnir glöggt er mikill mannfjöldi daglega í Reykjadalnum hér fyrir ofan Hveragerði. Í umfjöllun blaðsins kalla viðmælendur eftir landvörslu og úrbótum á svæðinu. Ég skil reyndar alls ekki hvers vegna blaðamenn ræða ekki hreinlega við landeiganda sem er í lófa lagið að gera allar þær breytingar og úrbætur sem þörf er á. Reykjadalur er hluti Reykjalandsins en það er í eigu íslenska ríkisins. Þarna eru engir landeigendur að þvælast fyrir framkvæmdum því eignarhaldið er alveg skýrt. Íslendingar eiga Reykjadal saman og ríkisstjórnin getur farið í úrbætur þarna hvað varðar landvörslu og aðgengi ef vilji er til staðar. Sveitarfélögin, Hveragerði og Ölfus, hafa sett peninga í framkvæmdir og lagt fram ómælda vinnu við framkvæmdir sem við sjáum ekkert eftir. En nú væri óneitanlega gott að fá kröftugt útspil íslenska ríkissins og þá sérstaklega varðandi landvörslu og úrbætur hvað varðar salernisaðstöðu.
Comments:
Skrifa ummæli