13. júní 2016
Það segja mér garðplöntusalar hér í Hveragerði að þetta vor sé alveg einstaklega gott. Meira að segja ganga þeir svo langt að jafna því við 2007. Fólk virðist hafa mun meira á milli handanna en áður, versla meira og spá minna í verðið. Góðviðrið hefur síðan klárlega gert mikið fyrir söluna í ár en vorið kom hreinlega 3 vikum fyrr en í fyrra að minnsta kosti.
Núna er ekki einu sinni kominn 17. júní sem var hér áður opinber útplöntunardagur sumarblóma á mínu heimili en sumarblómin mín í ár hafa baðað sig í blíðunni vikum saman þegar þetta er skrifað.
Það var mikið um að vera um helgina. Garðvinnan tekur reyndar allar frístundir enda er svo gaman að stússast í garðinum þegar veðrið leikur svona við mann. Ég fjárfesti í gróðurhúsi sem núna er komið upp og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna í því. Búinn að vera draumur í mörg ár og nú loksins lét ég verða af þessu. Já, ég skrifa ég, en ekki við, því þó að Lárus sé alveg liðtækur í garðinum þá held ég nú ekki að draumur hans hafi verið gróðurhús í garðinn :-)
Skyrgerðin og Skyr hostel opnaði um helgina í gamla Hótel Hveragerði. Elfa Dögg á heiður skilinn fyrir það hversu vel hún hefur tekið húsið í gegn og mér sýnist sem að reksturinn lofi góðu. Matseðillinn girnilegur og innréttingar einstaklega smekklegar. Þetta verður flott viðbót við flóru veitinga og gististaða í Hveragerði.
Í dag vann ég í ýmsum málum á bæjarskrifstofunni. Gekk meðal annars frá nýjum ráðningarsamning við Sævar Þór Helgason, sem er nýráðinn skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði og hitti fjárfesta sem hafa áhuga á uppbyggingu í Hveragerði og ýmislegt fleira.
Meirihlutafundur venju samkvæmt í kvöld og nóg um að vera á morgun ...
Comments:
Skrifa ummæli