5. maí 2016
Notuðum þennan yndislega frídag í að skoða Stokkseyri, já, það er nefnilega alveg hægt og meira að segja mjög gaman ! Byrjuðum í fjörunni þar sem við leituðum ásamt Haraldi árangurslaust að kröbbum. Fórum svo í sund þar sem við vorum alein í lauginni. Veiðisafnið vakti svo ómælda aðdáun hjá yngsta manninum í hópnum. Spurning reyndar hvort hann muni ná sér á áfallinu yfir því að sjá öll þessi hálfu dýr ! ! ! En hann elskað langmest lítinn selkóp enda var hann aleinn og móðurlaus á gólfinu. Haraldur lagðist við hliðina á honum og ætlaði bara að vera hjá aumingja yfirgefna selnum :-) Það er komið nýtt kaffihús á Stokkseyri og þar er hægt að fá frábærar heimabakaðar brauðbollur, snilld ! Enduðum síðan strandferðina á heimsókn til Magnúsar Karels þar sem við keyptum gos og lakkrís rör meðal annars. Við mæðgur vildum endilega fá mynd af okkur með goðsögninni :-)
---------------
Var að lesa DV og þar birtist enn eitt viðtalið við flóttamann sem á að senda úr landi eftir að hafa verið hér á landi í níu mánuði. Hann verður sendur til Frakklands þar sem þúsundir flóttamanna hírast við ömurleg kjör í tjaldbúðum í Calais. Ég held að við þurfum að skoða betur aðstæður fólks og ástæður þess að það sækir hér um hæli áður en við vísum þeim úr landi sérstaklega þar sem við vitum að það sem bíður þeirra er ömurleg tilvera og skýlaus brot á mannréttindum. Við eigum síðan að gera allt sem hægt er til að hraða málsmeðferð til að fólk sé ekki búið að skjóta hér rótum og eygja von um betra líf þegar við rífum það upp og rekum úr landi.
Comments:
Skrifa ummæli