29. febrúar 2016
Mætti í vinnuna í dag eftir veikindin og nóg að gera eins og búast mátti við. Það tekur alltaf óratíma að ganga frá og svara tölvupóstum þegar ekki hefur verið mætt í vinnuna um tíma. Fyrri partur dagsins fór í það. Reyndar fór líka þónókkur tími á skrifstofunni í að ræða atburði og uppákomur helgarinnar, Edduna og Reykjavíkurdætur svo fátt eitt sé talið. Sitt sýndist hverjum eins og oftast áður!
Fundur með Oddi skipulagsráðgjafa eftir hádegi um endurskoðun aðalskipulagsins.
Síðdegis var ég gestur á aðalfundi Sjálfstæðisfélagsins í Grafarvogi og skemmti mér konunglega. Virkilega skemmtilegt fannst mér og gaman að geta látið gamminn geysa utan Hveragerðis um hin ýmsu málefni flokksins, borgarinnar, landsmála og fleira. Sleppti reyndar ekki Hveragerði enda ekki hægt annað en að minnast á minn yndislega heimabæ.
Meirihlutafundur í kvöld - fjölmenni sem var afar gott. Þessi hópur er svo öflugur, afar líflegur, skoðana- og kraftmikill með endemum. Það er einkenni meirihlutans í Hveragerði og það sem gerir hann jafn góðan og raun ber vitni.
----------------
Horfði síðan á Valdimar bróður í stórgóðu viðtali á Hringbraut um Kjörís og landsmálin. Þar var meðal annars rætt um hinn erfiða dag þegar pabbi lést langt um aldur fram. Ég er elst okkar systkina og var þá 29 ára. Sigurbjörg var 18 ára. Ekkert okkar gerði ráð fyrir þeirri atburðarás sem þarna hófst. Sjálfsagt var aldur okkar bara kostur, við vorum alltof ung til að gera okkur grein fyrir þeim breytingum sem þessi atburður hafði á okkur öll og þeirri ábyrgð sem skellt var á ungar herðar. En það er margt sem ég man eftir frá þessum örlagaríku dögum og sumt af því hef ég skrifað niður sem smásögur. Einhvern tíma birti ég það - mögulega - eða ekki?
Ekkert af þessu gleymist en sumt situr fastar en annað. Eitt af því var að fá símhringingu um miðja nóttina eftir að hafa verð send burt um kvöldið! "Þetta er búið, þið getið komið núna". Stíga síðan út úr húsi móðurbróður okkar í Hafnarfirði nóttina sem líffæri pabba voru fjarlægð. Nóttin var þögul, bærinn var þögull. Himininn var stjörnubjartur. Það var fullt tungl. Yfir borgina flaug þota lágflug. Við vissum öll hvað hún var að gera hér um miðja nótt. Sænska læknateymið var á leið úr landi, búið var að slökkva á vélunum og þetta var búið ..... !
Eitt af því fáa sem hægt er að ganga að alveg vísu í þessari tilvist er að enginn sleppur við áföll. Svo heppin erum við fæst. Við getum aftur á móti valið að lifa með þeim og það gerðum við öll - ég er svo óendanlega heppin með fjölskyldu, svo stolt af þeim öllum en allra mest er ég stolt af mömmu klettinum okkar allra sem stendur allt af sér - og stendur alltaf með ungunum sínum öllum. Það er gæfan okkar stóra og mikla !
Eitt af því fáa sem hægt er að ganga að alveg vísu í þessari tilvist er að enginn sleppur við áföll. Svo heppin erum við fæst. Við getum aftur á móti valið að lifa með þeim og það gerðum við öll - ég er svo óendanlega heppin með fjölskyldu, svo stolt af þeim öllum en allra mest er ég stolt af mömmu klettinum okkar allra sem stendur allt af sér - og stendur alltaf með ungunum sínum öllum. Það er gæfan okkar stóra og mikla !
Comments:
Skrifa ummæli