22. febrúar 2016
Leikskólar og konudagurinn með besta ....
Síðastliðinn föstudag hitti ég leikskólastjórana til að fara yfir biðlista barna eftir leikskólaplássi. Er skemmst frá því að segja að öllum börnum var raðað inn á leikskólana tvo og munu því öll börn sem nú eru á biðlista fá tilboð um leikskólavistun í sumar eða í haust. Áformað er að bjóða uppá leikjanámskeið í sumar fyrir yngstu grunnskólabörnin og eins og í fyrra mun elsta árgangi leikskólans bjóðast að vera þar gjaldfrjálst. Reyndar þarf að greiða fyrir mat en það þykir nú flestum sjálfsagt. Með því að elstu börnin taki þátt í leikjanámskeiðinu ætti að vera hægt að taka þau yngstu aðeins fyrr inn á leikskólann.
Á föstudaginn hittum við einnig arkitekta að nýjum leikskóla og fórum yfir óskir og væntingar til nýrrar leikskólabyggingar. Nú þarf að teikna leikskólann fljótt og vel svo útboð geti farið fram hið allra fyrsta.
Hin árlega "krosssaumshelgi" var um síðustu helgi i sumarbústað hér í Ölfusinu. Þá hittist tugur kvenna sem á það sameiginlegt að vera vinkonur Gunnu og Svövu og iðkar æðri hannyrðir heila helgi. Mikið sem þetta er skemmtilegt og við erum fyrir löngu orðnar góðar vinkonur allar saman ! Fólk trúir því ekki að við séum að prjóna og sauma en heldur að við liggjum bara í pottinum með hvítt í glasi og Sigga Hlö á línunni. En þannig er það sem sagt aldeilis ekki !
Konudagsmorgunverður á leikskólanum Undralandi og Haraldur Fróði bauð slatta af konunum í lífi sínu í heimsókn. Eins og sést á myndinni þá elskar hann enga jafn mikið og Vigdísi og Hafrúnu. En þarna eru semsagt, mamman, amman, langamman og ömmusystirin ! Virkilega góð stund...
Comments:
Skrifa ummæli