22. janúar 2016
Í bílnum á leiðinni norður á Sauðárkrók gefst ágætis tækifæri til að blogga ....
Marauður vegur og 6 stiga hiti í Húnavatnssýslunni, það telst nú ágætt svona í miðjum janúar. Reyndar er myrkrið hérna alveg svakalega svart... Ölfusið er orðið svo upplýst og meira að segja Hellisheiðin að maður á þessu ekki að venjast.
Við ætlum að kíkja á lífið og tilveruna hjá tengdaforeldrunum að Aðalgötu 22 á Króknum. Þar eldist fólk svona eins og við öll gerum og þegar fólk er komið á níræðisaldur þá er svo sem ekki óeðlilegt þó að eitthvað gefi eftir. Það er aftur á móti afskaplega vont að þegar allir eru svona langt í burtu eins og í okkar tilfelli. Næstu ættingjar staddir í Reykjavík og Hveragerði og þetta er svo sem ekki sunnudagsbíltúr að skreppa norður !
-------------
Fundur í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Árnessýslu í morgun ásamt stjórn Brunavarna Árnessýslu. Þessi hópur hefur hist nokkuð ört undanfarið vegna ýmissa mála er lúta að Brunavörnum.
Hér heima þurfti að svara erindum og póstum og ganga frá atriðum er varða álagningu fasteignagjalda. Álagningarseðlarnir munu berast íbúum í næstu viku. Rétt er að minna á að álagningarprósentur fasteignaskatts eru óbreyttar en gjald vegna sorps hækkar um 2%.
Boðaði til fundar í starfshópi um byggingu nýs leikskóla. Í gær heimsóttum við Guðmundur arkitekta og fórum yfir ýmis konar teikningar og hugmyndir varðandi leikskóla. Þessir sömu aðilar munu ræða við starfshópinn í næstu viku. Eftir fundinn í gær kíktum við á Mannamót - stórsýningu ferða þjónustunnar. Mjög skemmtileg sýning og gaman að sjá þá grósku sem er víða um land.
Bæjarráðs fundur síðdegis í gær var frekar rólegur og fá stór mál í gangi.
Á leiðinni norður tekst mér að lesa fultl af tölvupóstum og grynnka þannig á listanum. Það er góð tilfinning :-)
Comments:
Skrifa ummæli