13. janúar 2016
Dauðir fingur, fasteignir og fleira
Las á netinu áðan um sjúkdóm sem kallast Reynaud einkennið. Yfirleitt vekja ekki sjúkdómar og læknisaðgerðir áhuga minn en ég staldraði við þennan enda kannaðist ég svo vel við þessa lýsingu. Reyndar ekki frá mér en frá mömmu og öllum systkinum mínum. Þau þurfa nefnilega öll að glíma við það að ef þeim kólnar þá "deyja" á þeim fingur og tær með tilheyrandi óþægindum. Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlega merkilegt og enn merkilegra að ég skuli vera sú eina í hópnum með eðlilega blóðrás - heppin :-)
En hér er mynd af fingrunum á Guðrúnu systur einn kaldan dag í fyrra. Þetta er auðvitað langt frá því að vera eðlilegt ! ! !
En svo minnst sé aðeins á vinnuna þá vann ég ráðningarmálum slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu en það mál er vonandi á lokastigi. Átti eins og oft áður gott samtal við Soffíu fasteignasala og glöddumst við yfir mikilli sölu og hækkandi fasteignaverði sem eykur eignastöðu bæjarbúa. Átti einnig gott samtal við Sigurð forstjóra Fengs hér í Hveragerði en þar er unnið að úrvinnslumálum með þeim hætti að það er til mikillar fyrirmyndar. Deloitte endurskoðendur hafa nú opnað skrifstofu hér í Hveragerði sem er frábært framtak. Ræddi við fulltrúa þeirra í dag um fyrirhugaða formlega opnun skrifstofunnar sem verður þann 29. janúar. Helga skrifstofustjóri fór hamförum í dag í skjalastjórnunarkerfinu OneSystem en nú höfum við sent út rafræn fundarboð í nokkur skipti og í fyrsta skipti verður fundargerð bæjarstjórnar rafræn á fundinum á morgun. Það gefur einnig tækifæri til birtingar fundargagna á netinu þegar fundargerðin verður birt.
Zumba í morgun kl. 6, sjúkraþjálfun hjá Jóni Birgi seinnipartinn og þaðan beint í líkamsrælt, foam flex og infra rauða klefann. Góður dagur svona hreyfingarlega séð.
Horfi núna á þátt um Eystrasaltslöndin og þátttöku okkar í frelsisbaráttu þeirra. Það er svolítið sérstakt að sjá þarna marga af þeim stöðum sem við heimsóttum í Litháen í sumar undir allt öðrum kringumstæðum en við upplifðum. Núna erum við reyndar að plana heimsókn til Eistlands og Rússlands í sumar - það verður ekki síður athyglisvert.
Comments:
Skrifa ummæli