25. nóvember 2015
Starfshópur um byggingu nýs leikskóla gerði víðreist í dag og skoðaði fjóra leikskóla. Byrjuðum á Selfossi þar sem Jötunheimar voru heimsóttir. Mjög fallegur og skemmtilegur skóli þar sem vel var tekið á móti okkur. Þaðan fórum við til Þorlákshafnar þar sem Bergheimar voru skoðaðir. Þar ræður hún Ásgerður ríkjum og gerir það afskaplega vel. Skólinn þar er teiknaður af sama aðila og teiknaði Flóaskóli og er skipulagið allt með besta móti. Þar finnst mér afbragð að hver deild er með sinn eigin inngang og fataklefa. Einnig er eldhúsið mjög gott og matreiðslumaðurinn enn betri sýndist mér :-)
Hópurinn fór síðan í gómsæta kjötsúpu og upprúllaðar pönnukökur á Litlu kaffistofunni. Það er eðal veitingastaður og maður fær ekki betri kjötsúpu. Mæli með minni skammtinum þó - sá stóri var ansi vel útilátinn !
Heimsóttum síðan leikskólann Stekkjarás í Hafnarfirði en þar þurftum við ekki langan tíma til að sannfærast um að hönnuður hans hlyti að vera Páll Gunnlaugsson, sem einnig hannaði Óskaland. Stekkjarás er afskaplega svipaður Óskalandi nema hvað rýmin eru öll aðeins stærri enda er þetta 8 deilda leikskóli einn sá alstærsti á landinu. Hér má sjá magnið af vögnum sem fara á deildirnar fyrir síðdegiskaffi barnanna.
Í Kópavogi skoðuðum við leikskólann Austurkór eftir að hafa villst inn á leikskólann Kór. Austurkór er glænýr 6 deilda leikskóli en þar vakti athygli að deildirnar eru frekar litlar sem og salurinn en hann var tekinn undir matsal og hreyfing fer fram á göngum eða einfaldlega utandyra.
Guðmundur Baldursson er mjög áhugasamur um tæknirými og hér hefur hann þefað uppi loftræstimiðstöðina í Stekkjarási. Í nýjum leikskóla mun hann gera tæknirými að algjöru skilyrði heyrist mér :-)
Þetta var afar lærdómsríkur dagur og fjölmargt sem við sáum og heyrðum sem mun nýtast í vinnunni framundan. Starfshópurinn er afskaplega vel skipaður áhugasömum einstaklingum og það skiptir máli.
Comments:
Skrifa ummæli