29. september 2015
Vaknaði kl. 5:45 og dreif mig út til að mæta í Zumba kl. 6:00. Komst þá að því að Zumba er bara alls ekki boði svona snemma á þriðjudögum - óheppin alltaf ! ! ! En úr því ég var nú komin á fætur þá fór ég langan kraftgöngutúr um götur bæjarins og upp að Reykjafjalli. Soldið mikið myrkur á stígunum en vasaljósið í símanum gerði alveg sitt gagn... Verst að ég þarf að vakna aftur á morgun svona snemma því að ÞÁ er nefnilega Zumba :-)
-----------------------
Annars er alveg nóg að gera þessa dagana, sérstaklega þar sem hún Helga, skrifstofustjóri, er í Grikklandi og eins og það sé ekki nóg þá er Guðmundur, skipulags og byggingafulltrúi í fríi í Bandaríkjunum. Ef að þau skyldu lesa þetta þá er nú notalegt fyrir þau að vita að þeirra er saknað :-)
-------------------------
Undirbjó fyrir hádegi gögn vegna fundar sveitarstjórnarmanna með þingmönnum sem haldinn var í Þorlákshöfn eftir hádegi. Árlega koma þingmenn í kjördæmavikunni og gera víðreist um héraðið. Alltaf gott að hitta hópinn þó að í dag höfum við Hvergerðingar neyðst til að yfirgefa fundinn aðeins of snemma vegna annars fundar sem var við það að bresta á hér uppfrá. Einnig þurfti ég að fara yfir launagreiðslur bæjarins sem ég geri ávallt fyrir útborgun og klára fundarboð bæjarráðs sem fór út í dag en fundurinn verður á fimnmtudag.
Síðdegis skrapp ég í bæinn á fund í Valhöll þar sem góður hópur var samankominn. Notaði tímann á báðum leiðum til símtala enda á ég núna hinn þokkalegasta handfrjálsa búnað :-)
Allt þetta útstáelsi gerði að verkum að ég varð að samþykkja reikninga og svara tölvupóstum í kvöld enda stór dagur framundan á morgun en þá ætlar bæjarráð að heimsækja allar stofnanir bæjarins. Slíkar heimsóknir eru árlega í aðdraganda fjárhagsáætlunar.
Comments:
Skrifa ummæli