21. september 2015
Fundur í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Árnesinga hér í Hveragerði í morgun. Þar er ég nú dottin inn aftur eftir að Ninna Sif tók þá ákvörðun að fara í leyfi. Þar með er ég einnig orðin formaður í stjórn Listasafns Árnesinga eins og ég hef áður verið. Það er nú bara gaman að því enda málefni safnsins með eindæmum skemmtileg. Á fundinum í dag undirbjuggum við haustfund Héraðsnefndar sem halda á hér í Hveragerði þann 15. október.
Átti síðan afar góðan fund í Hveragarðinum með aðilum sem núna eru að vinna með Davíð Samúelssyni að viðbótum við Hveragarðinn. Það er ætlun okkar að koma nýjungum þar fljótlega á koppinn sem vonandi munu enn auka við gestakomur í garðinn. Það er gaman að segja frá því að árið 2003 komu um 2.000 gestir á hverasvæðið. Árið 2015 komu yfir 20.000 gestir í Hveragarðinn og í ágúst núna í ár var heimsóknafjöldinn orðinn 18.000 gestir. Hér er rukkaður hóflegur aðgangseyrir og fæstir setja það fyrir sig enda um skemmtilega upplifun hér að ræða. Ef að hugmyndirnar sem nú er unnið að ganga eftir þá ættum við að geta laðað að okkur gesti yfir vetrartímann einnig sem klárlega gefur ýmis tækifæri. Á myndinni hér til hliðar eru ungir menn að sjóða egg í Hveragarðinum en það er afar vinsælt að gera það og borða síðan eggin með nýbökuðu hveraelduðu rúgbrauði. Þessa flottu mynd tók hún Guðný sem er meðlimur í Ljósmyndaklúbbnum Blik.
Hitti ýmsa í dag eins og gengur þar á meðal Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrverandi fræðslustjóra Reykjavikur, en hún vinnur nú að úttekt á Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings í samræmi við samþykkt þar um. Það er alltaf gefandi að hitta Gerði enda er hún einstakur viskubrunnur í þessum málaflokki. Við vorum svo lánsöm Árnesingar að fá hana til að leiða okkur fyrstu skrefin þegar Skóla- og velferðarþjónustan var stofnuð og tel ég það hafa verið afar farsæla ákvörðun.
Comments:
Skrifa ummæli