2. febrúar 2015
Það varð ekkert úr sundinu í dag þrátt fyrir góðan ásetning og sérlega góðan vilja í gær :-)
Ákvað að taka undirbúning fyrir meirihlutafund kvöldsins framyfir enda veitti ekki af þar sem dagskráin var algjörlega þéttpökkuð. Svo sem ekki við öðru að búast að ýmislegt þyrfti að ræða eftir óvanalega langt hlé.
Annars var fundur í stjórn Sorpstöðvar í morgun þar sem meðal annars var fjallað um málefni Orkugerðarinnar, sem oftast gengur undir nafninu Kjötmjöl. Þarna eiga sveitarfélög á Suðurlandi um 35% hlut svo eðlilega koma mál fyrirtækisins inn á borð Sorpstöðvar sem heldur utan um eignarhlutinn.
Á undan Sorpstöðvarfundinum hitti ég Guðrúnu Tryggavadóttur og Einar Bergmund sem reka fyrirtækið natturan.is en þau vinna nú hörðum höndum að því að kynna endurvinnslu-appið fyrir sveitarfélögum landsins. Það er þegar hægt að sækja appið fyrir Iphone svo nú er um að gera að prufa. Erindi frá þeim um þátttöku Hveragerðisbæjar í verkefninu mun verða tekið fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni.
Hitti mann í dag og í samtali spannst umræða um það að Hveragerði væri umlukið Ölfusinu á alla kanta. Ég sagði honum að þetta væri stórgott, við værum auðvitað bara eins og Monaco og ekki hefur nú hingað til verið kvartað þar á bæ yfir aðstæðunum. Hann sagði að ég hefði kolrangt fyrir mér við værum ekki eins og Monaco, við værum í raun eins og Vatikanið og bæjarstjórinn þar af leiðandi eins og páfinn - ekki slæmt hlutskipti það ;-)
Comments:
Skrifa ummæli