16. september 2010
Afar annasamir dagar að baki. Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið á Selfossi mánudag og þriðjudag. Þetta er alltaf heilmikill fundur en auk aðalfundar SASS eru haldnir á sama tíma að aðalfundir Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpstöðvar Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands. Margir góðir fyrirlesarar komu auk þess á fundinn þannig að þetta var bæði gagnlegt og skemmtilegt. Mikið er af nýju fólki í sveitarstjórnum og því er þessi vettvangur afar góður fyrir fólk til að kynnast og bera saman bækur sínar. Mér líst afskaplega vel á þennan hóp og veit að samstarf hans á eftir að verða gott. Ég sé að héraðsblöðin hafa gert þessum fundi góð skil þó þar örli nú á rangfærslum eins og þeim að nýkjörinn formaður Sorpstöðvar, Gunnar Egilsson á Selfossi sé eigandi Íslenska gámafélagsins. Það rétta er að félag í eigu bróður hans á hlut í félaginu og skapaði það umræðu meðal margra á fundinum, ekki eingöngu þeirra tveggja sem eignuð er sú afstaða í Sunnlenska fréttablaðinu. Sjálf verð ég stjórnarmaður í Sorpstöð ásamt Gunnari Egilssyni, Ara Thorarensen, Gunnari Þorgeirssyni og Guðmundi Inga Gunnlaugssyni. Hvergerðingar eiga auk þess formann Skólaskrifstofu Suðurlands, Ninnu Sif. Stjórnarmann í Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, Unni Þormóðs og stjórnarmann í Menningarráði Suðurlands, Eyþór H. Ólafsson. Skoðunarmaður allra félaga innan SASS er Guðmundur Þór. Lárus Kristinn er varamaður í samgöngunefnd og Elínborg Ólafs er varamaður í Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Á miðvikudagsmorguninn var vaknað fyrir allar aldir til að ná flugi kl. 7 með öðrum fulltrúum í Ferðamálaráði til Akureyrar kl. 7. Á Akureyri var haldin Ferðakaupstefnan VestNorden og á sama tíma fundaði Ferðamálaráð fyrir norðan.
Nú er verið að marka stefnu í ferðamálum fyrir Ísland og einnig voru kynntar fyrir okkur athyglisverðar nýjar hugmyndir um gæðakerfi í ferðaþjónustu. Ferðamálaráð tók síðan þátt í kaupstefnunni og var það afar athyglisvert. Það var gaman að sjá hversu fjölbreytt flóra íslenskrar ferðaþjónustu er og hversu margt skemmtilegt er í boði. Ég ákvað að heimsækja sérstaklega alla Sunnlensku sýnendurnar og skemmti ég mér konunglega við það. Davíð, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, hafði séð til þess að útlit sunnlensku básanna var allt í stíl, mjög flott og stílhreint og sýndi vel þá samstöðu sem nauðsynlegt er að ná í þessum geira. Framboð á gistingu, mat og afþreyingu er mjög fjölbreytt og í mínum huga er alveg ljóst að við eigum að geta náð enn lengra í þróun þessarar atvinnugreinar með það fyrir augum að stórauka gestakomur hingað á Suðurland og ekki síst til að lengja þann tíma sem gestir dvelja á svæðinu. Móttökur og landakynningar voru í Hofi nýja menningarhúsi Akureyringa. Virkilega skemmtilegt hús sem án vafa á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarlíf Akureyringa.
Maður er mannsins gaman og það sannast sem aldrei fyrr á svona uppákomum. Það var sérstaklega skemmtilegt að hitta þarna á sýningunni fólk sem ég hef ekki séð í langan tíma. Hitti meðal annars tvo fyrrverandi vinnufélaga frá Hótel Sögu og rakst síðan líka á íslenskan skólabróður minn frá lýðháskólanum í Noregi sem ég hef hvorki heyrt eða séð síðan. Það var hreint stórkostlegt, virkilega gaman að rekast þarna á hann. Flaug heim rétt um hádegi í dag og náði í vinnuna síðdegis til að grynnka aðeins á tölvupóstinum og erindum sem safnast höfðu upp þessa dagana. Reyndar er ég svo óendanlega þakklát Blackberry símanum mínum sem sér til þess að ég fæ alla tölvupósta jafnóðum hvar sem ég er stödd og því getur maður svarað miklu af erindum jafnóðum. Þetta er ótrúlegur munur.
Í kvöld tók ég ásamt Stellu á Upplýsingamiðstöðinni á móti framkvæmdastjórn ESPA sem eru evrópsk samtök heilsubæja og heilsulinda. Hópurinn kom á hverasvæðið í rökkrinu og sá því ekki eins og mikið og þau hefðu gert í dagsbirtunni, en manndrápshverinn gaus fyrir þau mér til mikillar ánægju, hverabrauðið og eggin brögðuðust vel og Irena Sylva skemmti með fiðluleik. Þetta var afslöppuð og góð heimsókn fólks sem virkilega hafði áhuga á því sem hér er verið að gera og þekkti heilsulindir út og inn. Hópurinn er hér á vegum Heilsustofnunar NLFÍ og með í för voru forsvarsmenn stofnunarinnar. Ég hafði Albert Inga með, mér til halds og trausts enda hafði ég heldur ekki séð hann í fjóra daga. Hann var ansi góður, spjallaði við gestina á ensku um heima og geima og nú á hann heimboð hjá fyrrverandi borgarstjóra Baden Baden, það er nú ekki slæmt þegar maður er fjórtán ára :-)
Á miðvikudagsmorguninn var vaknað fyrir allar aldir til að ná flugi kl. 7 með öðrum fulltrúum í Ferðamálaráði til Akureyrar kl. 7. Á Akureyri var haldin Ferðakaupstefnan VestNorden og á sama tíma fundaði Ferðamálaráð fyrir norðan.
Nú er verið að marka stefnu í ferðamálum fyrir Ísland og einnig voru kynntar fyrir okkur athyglisverðar nýjar hugmyndir um gæðakerfi í ferðaþjónustu. Ferðamálaráð tók síðan þátt í kaupstefnunni og var það afar athyglisvert. Það var gaman að sjá hversu fjölbreytt flóra íslenskrar ferðaþjónustu er og hversu margt skemmtilegt er í boði. Ég ákvað að heimsækja sérstaklega alla Sunnlensku sýnendurnar og skemmti ég mér konunglega við það. Davíð, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, hafði séð til þess að útlit sunnlensku básanna var allt í stíl, mjög flott og stílhreint og sýndi vel þá samstöðu sem nauðsynlegt er að ná í þessum geira. Framboð á gistingu, mat og afþreyingu er mjög fjölbreytt og í mínum huga er alveg ljóst að við eigum að geta náð enn lengra í þróun þessarar atvinnugreinar með það fyrir augum að stórauka gestakomur hingað á Suðurland og ekki síst til að lengja þann tíma sem gestir dvelja á svæðinu. Móttökur og landakynningar voru í Hofi nýja menningarhúsi Akureyringa. Virkilega skemmtilegt hús sem án vafa á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarlíf Akureyringa.
Maður er mannsins gaman og það sannast sem aldrei fyrr á svona uppákomum. Það var sérstaklega skemmtilegt að hitta þarna á sýningunni fólk sem ég hef ekki séð í langan tíma. Hitti meðal annars tvo fyrrverandi vinnufélaga frá Hótel Sögu og rakst síðan líka á íslenskan skólabróður minn frá lýðháskólanum í Noregi sem ég hef hvorki heyrt eða séð síðan. Það var hreint stórkostlegt, virkilega gaman að rekast þarna á hann. Flaug heim rétt um hádegi í dag og náði í vinnuna síðdegis til að grynnka aðeins á tölvupóstinum og erindum sem safnast höfðu upp þessa dagana. Reyndar er ég svo óendanlega þakklát Blackberry símanum mínum sem sér til þess að ég fæ alla tölvupósta jafnóðum hvar sem ég er stödd og því getur maður svarað miklu af erindum jafnóðum. Þetta er ótrúlegur munur.
Í kvöld tók ég ásamt Stellu á Upplýsingamiðstöðinni á móti framkvæmdastjórn ESPA sem eru evrópsk samtök heilsubæja og heilsulinda. Hópurinn kom á hverasvæðið í rökkrinu og sá því ekki eins og mikið og þau hefðu gert í dagsbirtunni, en manndrápshverinn gaus fyrir þau mér til mikillar ánægju, hverabrauðið og eggin brögðuðust vel og Irena Sylva skemmti með fiðluleik. Þetta var afslöppuð og góð heimsókn fólks sem virkilega hafði áhuga á því sem hér er verið að gera og þekkti heilsulindir út og inn. Hópurinn er hér á vegum Heilsustofnunar NLFÍ og með í för voru forsvarsmenn stofnunarinnar. Ég hafði Albert Inga með, mér til halds og trausts enda hafði ég heldur ekki séð hann í fjóra daga. Hann var ansi góður, spjallaði við gestina á ensku um heima og geima og nú á hann heimboð hjá fyrrverandi borgarstjóra Baden Baden, það er nú ekki slæmt þegar maður er fjórtán ára :-)
Comments:
Skrifa ummæli