26. mars 2006
Eftir opna húsið á laugardaginn fór stór hluti framboðslistans í kynnisferð til Suðurnesja.Byrjað var í ráðhúsi Reykjanesbæjar þar sem við hittum Árna Sigfússon, bæjarstjóra og Böðvar Jónsson, formann bæjarráðs. Árni kynnti fyrir okkur þá vinnu sem fram hefur farið í hinum ýmsu málaflokkum en lagði þó sérstaka áherslu á skólamál, íþróttamál og málefni aldraðra. Sjálfstæðismenn hafa hreinan meirihluta í Reykjanesbæ, staða þeirra nú fyrir kosningar er firnasterk enda sér hver maður að vel er haldið utan um hlutina í bæjarfélaginu og metnaðarfull vinna í gangi á öllum sviðum.
Að lokinni heimsókn í ráðhúsið heimsóttum við kosningaskrifstofu Sjálfstæðismanna þar sem Georg Brynjarsson ræður ríkjum. Við glöddumst með þeim yfir húsnæðinu sem er á jarðhæð með góðri aðkomu enda var verslun þarna áður. Forseti bæjarstjórnar Björk Guðjónsdóttir hitti okkur á skrifstofunni og náðum við að skiptast á hugmyndum um starfið sem framundan er.
Reynir Sveinsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Sandgerði tók síðan á móti hópnum í því ágæta sveitarfélagi og sýndi okkur nýbyggt stjórnsýsluhús bæjarins. Það er hið glæsilegasta og rúmar fyrir utan bæjarskrifstofurnar, bókasafn, heilsugæsluna, eldhús fyrir allar stofnanir bæjarins, Búamanna íbúðir, banka og fjölnota sal. Enn er verið að vinna í húsinu en húsnæðið sem tilheyrir bæjarfélaginu er tilbúið og var tekið í notkun fyrir 2 vikum. Á húsinu er glerturn mikill með svölum efst þar sem útsýni yfir bæinn er gott og ekki spillti veðrið á laugardaginn útsýninu svo mikið er víst.
Karl Jóhann tók fullt af myndum í ferðinni og þær má sjá hér.
Við frambjóðendurnir rétt náðum heim til að sjá lokamínútur í leik Kvennaliðs H/S í körfubolta við Ármann/Þrótt. Stelpurnar okkar unnu leikinn með glæsibrag og þar með var ljóst að þær höfðu unnið 2.deild kvenna og munu því spila í 1. deild að ári. Frábær árangur hjá stelpunum. Þau eru ekki mörg sveitarfélögin sem geta státað af því að eiga lið í efstu deild bæði karla og kvenna í körfu ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli